Aðalfundur BÍ í kvöld!

 

Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands verður haldinn í kvöld  fimmtudaginn 28. apríl 2016 klukkan 20 í húsnæði félagsins að Síðumúla 23.  Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, en hæst ber að fyrir fundinum liggur tillaga stjórnar um lagabreytingu sem felur í sér að félagsgjald hækkar í 1% af launum úr 0,8%.  Það er gert til þess að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn til framtíðar, en gjöldin voru lækkuð úr 1,45% í 0,8% eftir hrun íslensks efnahagslífs 2008 til þess að koma til móts við félagsmenn í þeim miklu erfiðleikum sem þá gengu yfir og fólu meðal annars í sér beinar launalækkanir.  Nú þegar betur árar er rétti tíminn til þess að hækka gjöldin aftur, en það er þó langur vegur að þau fari í það horf sem þau voru í fyrir hrun.   Gjöld til BÍ eru eftir sem áður með því lægsta sem þekkist hér á landi sérstaklega meðal lægri stéttarfélaga.

 

Tillaga til lagabreytinga lögð fyrir aðalfund BÍ fimmtudaginn 28. apríl 2016:

Töluliður 3.1 breytist þannig að í stað 0,8% komi 1,0% í fyrsta málslið.

Lagagreinin breytt er þá svohljóðandi:

3.1. Félagsgjald skal vera 1,0% af heildarlaunum eins og þau eru á hverjum tíma hjá þeim félögum, sem eru fastráðnir eftir aðal- og sérkjarasamningum félagsins. Sjálfstætt starfandi blaðamenn greiða sömu gjöld, þó að lágmarki skv. byrjunarlaunum í 2. flokki kjarasamnings. Stjórn félagsins getur ákveðið að setja þak á félagsgjöld. Aðalfundur ákveður hverju sinni hvort og þá hversu hátt hlutfall félagsgjalda er lagt í varasjóð og orlofsheimilasjóð.

Töluliður 3.2 breytist þannig að í stað talnanna 0,7% í öðrum málslið komi 0,9%.

Lagagreinin breytt er þá svohljóðandi:

3.2. Biðfélagar greiða 0.5% af byrjunarlaunum í 2. flokki í félagsgjöld. Lausamenn greiða 0.9% af byrjunarlaunum í 2. launaflokki félagsins miðað við janúar ár hvert.