Unnið myrkranna á milli við að koma blaðamönnum í öruggt skjól í Úkraínu

Alþjóðlegu blaðamannasamtökin, IFJ, og Evrópusamtök blaðamanna, EFJ, hafa stofnað sérstakan sjóð, Ukraine Safety Fund, til að beina fjárstuðningi til úkraínskra blaðamanna þangað sem hann nýtist best. Blaðamannasamtökin í Úkraínu, NUJU og IMTUU hafa umsjón með fjármagninu sem safnast og hafa nýtt það til kaupa á öryggisbúnaði á borð við skotvesti, hjálma, lækningavörur og fleira. Einnig nýtist styrkurinn til þess að aðstoða blaðamenn við að koma sér úr lífshættulegum aðstæðum þegar þær skapast.

Eitt af því mikilvægasta sem félögin, með aðstoð alþjóðasamtakanna, vinna nú að er að koma um fimmtíu blaðamönnum í borginni Mariupol í skjól, en samkvæmt upplýsingum frá IFJ eru þau nú meðal þeirra sem rússneski herinn heldur í gíslingu í borginni. Tveimur blaðamönnum tókst að flýja, Iryna Horbasoyova og Serhiy Vaganov sem komust frá Mariupol á mándag, samkvæmt upplýsingum frá úkraínsku blaðamannasamtökunum.

Haft er eftir þeim á vef IFJ að Mariupol hafi verið helvíti líkast. Borgin hafi verið gjöreyðilögð. Frá 4 að morgni mánudags til klukkan 13 hafi þau talið 21 loftárásir á borgina. Formaður úkraínska blaðamannafélagsins, Sergiy Tomilenku segir að nú vinni félagið að því myrkranna á milli að því að koma blaðamönnum af átakasvæðum og þörfin fyrir hjálp sé mikil. Reynt sé að ná sambandi við þá blaðamenn sem vitað er um að séu á svæðinu en sökum rafmagnsleysis og síma- og internetsleysis sé erfitt að koma upplýsingum til þeirra um mögulegar flóttaleiðir þegar þær opnast. 

Söfnun BÍ til handa úkraínskum blaðamönnum hefur fengið góðar undirtektir og nú þegast hafa safnast 300 þúsund krónur. Félagið mun einnig leggja söfnunni fé. 
Blaðamannafélag Íslands mun láta allt það fjármagn sem safnast hér á landi renna beint í Ukraine Safety Fund og hvetur þá sem ekki hafa enn eiga eftir að leggja inn að gera það hið fyrsta.

BÍ hvetur jafnframt eigendur og forsvarsmenn fjölmiðla og aðra sem vilja leggja málstaðnum lið að millifæra inn á reikning söfnunarinnar:

Kt. 690372-0109
Reikningsnr:  0130-26-001515