Úrskurður nr. 1/2024-2025

Kærandi: Arnar Þór Jónsson

 

Kærðu: Halldór Baldursson og Vísir.is

 

Kæruefni: Kærð er skopmynd eftir Halldór Baldursson sem birt var á vef Vísis 18. maí sl., sem kærandi telur meiðandi, ómálefnalega og að framsetningin sé óheiðarleg og ósanngjörn. Kærandi telur umfjöllunina varða við 1., 2. og 6. grein siðareglna.

 

Málsmeðferð:

Kæran barst skrifstofu BÍ laugardaginn 18.05.2024. Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands fékk málið í hendur þriðjudaginn 21.05.2024 og ákvað á fundi samdægurs að senda málið til andsvara til kærðu. Andsvör bárust frá Halldóri og Sýn hf. 28.05.2024. Siðanefnd fundaði um málið á ný 04.06.2024 og lá endanlegur úrskurður fyrir 07.06.2024.

 

Málavextir:

Kærandi var einn af tólf frambjóðendum til embættis forseta Íslands í forsetakosningunum 1. júní sl. Hin kærða skopmynd sýnir kæranda ásamt sex öðrum frambjóðendum.

Í kærunni segir að mynd Halldórs Baldurssonar brjóti gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Kæranda sé stillt upp í búningi sem augljóslega eigi að vera nasistabúningur. Slík framsetning sé „hvorki málefnaleg né fyndin, heldur meiðandi og ómálefnaleg.“ Ekkert sem hann hafi sagt eða skrifað gefi „Halldóri né Vísi lögmætt tilefni til að setja persónu [sína] í það samhengi sem þarna getur að líta.“

Kærandi segir þetta grófa aðför að mannorði sínu og þess „krafist að bæði teiknarinn og fjölmiðillinn verði áminntir fyrir brot, rangfærslur leiðréttar, umrædd mynd fjarlægð og [kærandi] beðinn afsökunar, bæði formlega og skriflega.“ Framsetningin er sögð óheiðarleg og ósanngjörn, hlutdræg og meiðandi. Jafnframt segir að myndin kristalli ófagleg vinnubrögð og brjóti „gegn skyldum blaðamanna með því að grafa undan lýðræðislegri tjáningu og afbaka málefnalega umræðu.“ Kærandi segir umfjöllunina ekki setta fram af heiðarleika og feli í sér órökstuddar ásakanir á hendur stórum hópi fólks í viðkvæmri stöðu.“

Í andsvörum kærða Halldórs segir m.a. að til að skilja skopmynd þurfi lesandi að geta sett sig inn í frásagnarformið. Hefðbundið sé að teiknari tjái sig með kaldhæðni, ýkjum og líkingamáli til að koma inntaki myndarinnar til skila. Í andsvörunum er bent á að kærandi sé málsvari klassísks frjálslyndis, en upphaf nútímaskopmyndarinnar megi rekja til frjálslyndra hugsuða fyrri alda, sem lagt hafi grunninn að einstaklingsfrelsi, mannréttindum og tjáningarfrelsi dagsins í dag. Þeir þættir „séu nauðsynlegir til að skopmyndin og gagnrýnin blaðamennska geti þrifist í greiningum sínum á samfélagslegu ástandi.“

Í andsvörum kærða Halldórs segir enn fremur að inntak skopmyndarinnar hafi verið að vísa til þess versta sem sagt hefur verið um forsetaframbjóðendur á samfélagsmiðlum. Ýkt framsetning myndarinnar ætti að draga lesandann að þeirri niðurstöðu að umræðan fari yfir mörkin. Kærði bendir á að kærandi hafi í störfum sínum sem stjórnmálamaður og forsetaframbjóðandi gengist í „þann óskrifaða samfélagssáttmála“ að taka opinberri gagnrýni.

Í andsvörum kærða Vísis segir að sá annmarki sé á kæru málsins að ekki sé rökstutt með neinum hætti hvernig umrædd skopmynd telst vera í andstöðu við 1., 2. og 6. gr. siðareglnanna. Kærði telur fjarri lagi að myndin geti talist hafa brotið í bága við siðareglurnar, heldur þvert á móti styrki siðareglurnar málstað kærðu. Með birtingu skopmynda sé staðinn vörður um tjáningarfrelsið, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga. Engum staðreyndum sé hagrætt heldur leitast við að endurspegla gildismat almennings sem birst hafi í opinberri umræðu. Þá „blasi við“ að verið sé að endurspegla skoðanir, en ekki staðreyndir, á eins hlutlægan hátt og satíra skopmynda leyfir. Þá er í andsvörunum vakin athygli á 12. gr. siðareglnanna en þar segir að siðareglurnar setji ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna.

 

Umfjöllun nefndarinnar:

Í málsmeðferðarreglum Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands segir, að hver sá sem telji að blaðamaður hafi brotið gegn siðareglunum og á hagsmuna að gæta, geti kært ætlað brot til nefndarinnar innan tveggja mánaða frá birtingu, enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma.

Í tíð eldri siðareglna var í gildi venja um að vísa frá kærum sem lutu að skoðanaskrifum einstaklinga, sem rita undir nafni, um þjóðfélagsmál þótt þau skrif kunni að hafa verið hvöss eða þar vegið að tilgreindum hagsmunum eða einstaklingum. Hið sama hafði verið látið gilda um ritstjórnarefni blaða, á borð við leiðara, pistla eða skopmyndir. Um þetta vísast m.a. til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 5/2007-2008, 2/2019-2020 og 3/2019-2020.

Framangreint byggði á 5. gr. eldri siðareglna en þar sagði m.a. að „siðareglur þessar [settu] ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.“ Í gildandi siðareglum segir aftur á móti eingöngu að siðareglurnar setji ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna, sbr. 1. málsl. 12. gr. siðareglnanna.

Sökum téðrar breytingar telur siðanefnd ekki rétt að vísa málinu frá nefndinni af þeirri ástæðu einni að um ritstjórnarefni sé að ræða. Kæra í máli þessu barst innan tveggja mánaða frá birtingu skopmyndarinnar og frá aðila sem hefur hagsmuna að gæta vegna umfjöllunarinnar. Kæran er því tæk til efnismeðferðar.

Kæruefni málsins er skopmynd sem birtist á vef Vísis þann 18. maí sl. Skopyndin felur í sér tjáningu kærða Halldórs Baldurssonar og sem fyrr segir setja siðareglurnar ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna, þótt kærði kunni að bera ábyrgð á gagnvart kæranda eftir almennum réttarreglum. Valdsvið nefndarinnar takmarkast við að ákveða hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin getur ekki fallist á það með kæranda að myndin brjóti gegn 1., 2. og 6. gr. siðareglnanna, og þá er ekki unnt að heimfæra myndina undir brot gegn öðrum greinum reglnanna. Telji kærandi að tjáning kærða hafi vegið að æru hans eða mannorði með almennum hætti, heyrir slíkur ágreiningur undir dómstóla og lýtur settum lögum, en ekki siðareglum og Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Einn nefndarmanna, Ásgeir Þór Árnason, er ósammála meirihluta nefndarinnar í formþætti málsins og telur að kæran sé ekki tæk til efnismeðferðar með vísan til nefndra frávísunarúrskurða í tíð eldri siðareglna. Í ljósi þess að meirihluti nefndarinnar telur málið tækt til meðferðar, lýsir hann sig sammála niðurstöðunni í efnisþætti málsins.

 

Úrskurðarorð:

Kærðu, Halldór Baldursson og Vísir.is, teljast ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands með birtingu skopmyndar þann 18. maí sl.


Reykjavík 07.06.2024

 

Pálmi Jónasson, formaður

Ásgeir Þór Árnason

Emma Björg Eyjólfsdóttir

Valgerður Anna Jóhannsdóttir

Jóhann Óli Eiðsson