Fréttir

Blaðamannaverðlaun: Tilnefningar dómnefndar

Blaðamannaverðlaun: Tilnefningar dómnefndar

 Dómnefnd Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands hefur nú birt tilnefningar sínar til verðlaunanna sem afhent verða á laugardaginn eftir viku, þann 4. mars. Samkvæmt reglugerð um verðlaunin skal dómnefnd birta þrjár tilnefningar í hverjum af fjórum flokkum verðlaunanna. Tilnefningar dómnefndar eru þessar: Viðtal ársins Auður Ösp Guðmundsdóttir, DV. Fyrir viðtal við Margréti Fenton um örlög dóttur hennar, Söndru Sigrúnar, sem afplánar nú 37 ára fangelsi fyrir vopnuð rán í Bandaríkjunum. Helgi Seljan, Kastljósi RÚV. Fyrir viðtal við hjónin Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur og Karl Olgeirsson um barnsmissi sem þau urðu fyrir vegna mistaka í fæðingu á Landspítalanum. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Stundinni. Fyrir viðtal við Berglindi Ósk Guðmundsdóttur sem segir sögu systur sinnar, Kristínar Gerðar, sem svipti sig lífi eftir áralanga baráttu við eiturlyfjafíkn og afleiðingar misnotkunar. Rannsóknarblaðamennska ársins Hörður Ægisson, DV. Fyrir umfjöllun um milljarða bónusgreiðslur slitastjórna Kaupþings og ALMC sem greiddar voru í kjölfar nauðasamninga og samninga um stöðugleikaframlag.  Tryggvi Aðalbjörnsson, RÚV. Fyrir umfjöllun um brot Brúneggja ehf. gegn dýravernd og svik við neytendur og máttleysi eftirlitsstofnana til að takast á við brotin. Þórður Snær Júlíusson, Kjarnanum. Fyrir fréttaskýringar um skiptingu auðs á Íslandi og misskiptingu gæða þrátt fyrir lítinn launamun í alþjóðlegum samanburði . Umfjöllun ársins Guðrún Hálfdánardóttir, Mbl.is Fyrir fréttaskýringar um Sýrland, vaxandi þjóðernishyggju í tengslum við flóttamenn þaðan og lítinn áhuga ráðamanna í Evrópu fyrir að taka á móti þeim. Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, Stöð 2 Fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum sem segir sögu þriggja ættleiddra kvenna og árangursríka eftirgrennslan landa á milli um rætur þeirra. Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu Fyrir fréttaröð um náttúruperluna Mývatn, þar sem mengun er margfalt yfir viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, líkast til af mannavöldum. Blaðamannaverðlaun ársins Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, RÚV. Fyrir skilmerkilega umfjöllun um íslensk stjórnmál og vandaðar fréttaskýringar af störfum Alþingis, ekki síst á tímum pólitísks óróa. Jóhannes Kr. Kristjánsson,  Reykjavík Media. Fyrir ítarlegar rannsóknir á þeim hluta Panamaskjalanna sem vörðuðu íslenska hagsmuni og  umfjöllun, í samstarfi við aðra miðla, um mikil viðskipti í skattaskjólum. Ragnar Axelsson og Orri Páll Ormarsson,  Morgunblaðinu. Fyrir áhrifamikla umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðum og sérstaklega hvernig þær breyta lífinu á túndrum Síberíu.  
Lesa meira
Noregur: Almenningsútvarp í deiglunni

Noregur: Almenningsútvarp í deiglunni

Norðmenn ræða nú fjármögnunaraðferðir  fyrir NRK, norska ríkisútvarpið og eru uppi skiptar skoðanir um hvaða leiðir eigi að fara. Umræðan er ekki ósvipuð því sem var hér á landi fyrir nokkrum árum enda sambærilegar tillögur á borðinu, þ.e. að hafa annars vegar afnotagöld og hins vegar að taka upp sérstakt útvarpsgjald og fjármögnun fari í gegnum fárlögin. Thor Gjermund Eriksen, útvarpsstjóri NRK hefur lýst sig andvígan því að fjármögnun fari í gegnum fjárlög enda telfli það óhæði stofnunarinnar í hættu. Ýmsir þingmenn Verkamannaflokksins hafa einnig viðrað svipaðar áhyggjur, og bent á að um leið og fjárveitingin komi úr hinu pólitíska umhverfi opnist fyrir þann möguleika að fréttir og dagskrárstefna taki  – raunverulegt eða ímyndað – mið af pólitískum straumum hverju sinni. Þetta gerist samhliða því að verið er að skoða möguleika á að koma upp einkarekinni almennings sjónvarpsstöð með línulega útsendingu sem myndi veita NRK ákveðið aðhald. Ýmsar útfærslur hafa verið ræddar varðandi slíkan möguleika, en í öllum tilfellum væri þá veittur stuðningur gegn ákveðnum skilyrðum um hlutfall frétta og upplýsingarefnis í dagskránni. Sjá einnig hér
Lesa meira
Almenningur fylgdist grannt með máli Birnu. Mynd mbl.is

Pressukvöld: Rannsóknin á hvarfi Birnu Brjánsdóttur – Samstarf og samskipti við fjölmiðla  

Pressukvöld verður haldið nk. miðvikudag, 22.febrúar, í Blaðamannaklúbbnum, sal Blaðamannafélags Íslands Síðumúla 23,  kl. 20. Yfirskrift kvöldsins er: "Rannsóknin á hvarfi Birnu Brjánsdóttur – Samstarf og samskipti við fjölmiðla. Hvernig hjálpuðu fjölmiðlar til við málið og hvað hefði mátt fara betur? "   Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verða á pressukvöldinu þar sem þau fara yfir rannsóknina á hvarfi og andláti Birnu Brjánsdóttur og þátt fjölmiðla í málinu.     Blaða- og fréttamenn eru hvattir til að mæta.  
Lesa meira
Trump á blaðamannafundinum í gær. Mynd: CNN

Sögulegur blaðamannafundur

Blaðamannafundur Trump Bandríkjaforseta í gær hefur verið tilefni fjörugra umræðna í heimi blaðamanna og blaðamennsku vestan hafs og raunar miklu víðar.  Forsetinn stóð í 77 mínútur og skammaðist yfir ósanngjarnri blaðamensku milli þess sem hann stærði sig af afrekum sínum. Colubia Journalism Review hefur tekið saman fréttir og umfjöllun sem kom út úr þessum fundi og bendir á að tímamótin sem þarna urðu voru kannski ekki að Trump hafi talað frjálslega um staðreyndir og látið ýmislegt flakka, það hafi hann iðulega gert í kosningabaráttunni. Munurinn nú og þá hafi hins vegar verið að nú var hann að tala við fullan sal af upplýstum og gagnrýnum hlustendum en ekki fylgismenn á já-fólk  á kosnigafundi. Sjá umfjöllun CJR hér  
Lesa meira
Meiðyrði tekin skrefi lengra!

Meiðyrði tekin skrefi lengra!

Meiðyrðamál á Möltu hefur tekið uggvænlelga stefnu fyrir blaðamenn almennt, og hefur EFJ, Alþjóðasamband blaðamanna, ákveðið að láta málið til sín taka og leggja fram erindi á vettvagi ESB um vernd blaðamanna (Platform for the Protection of Journalists). Málið sýst um pistil pistlahöfundarins og bloggarans Daphne Caruana Galizia sem skrifaði á síðu sína að tveir menn, Chris Cardona efnahagsmálaráðherra og aðstoðarmaður hans Joe Gerada hafi farið á vændishús í Þýskalandi þegar þeir voru þar á ferð í embættiserindum.  Þeir neita því og hafa höfðað meiðyrðamál gegn Galizia, sem í sjálfu sér er þekkt ferli. Það sem hins vegar er nýtt í málinu er að þeir fóru fram á háar miskabætur og að til öryggis verði banakareikningar Galizia frystir þar til niðurstaða er komin í málinu þannig að hægt verði að ganga að upphæð sem nemur 47.460 evrum. Sú frystin hefur nú verið samþykkt af dómstólum, en það gæti tekið nokkur ár að fá lka niðurstöðu. Þetta er ný þróun og segir Galizia sjálf í bloggfærslu  að  verið sé að þagga niður í blaðamönnum og afleiðingar þessa geti verið gríðarlegar fyrir stétt blaðamanna. Það sem ráðherra efnahagsmála og aðstoðarmaður hans hafi gert nú geti aðrir gert öðrum blaðamönnum sem standa frammi fyrir meiðyrðamáliaf einhverju tagi. Sjá nánar hér      
Lesa meira
Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins

(Af)staða blaðamanns í fréttum?

Fjörug umræða á sér nú stað í hópi blaðamanna vestan hafs og raunar miklu víðar um stöðu blaðamanna í fréttaflutningi.  Geta og eiga blaðamenn að vera hlutlægir í nálgun sinni og sýna hlutleysi í umfjöllun sinni? Þessi umræða sprettur upp í kjölfar ágengrar afstöðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta gagnvart fjölmiðlum og umræðu um „valkvæðar staðreyndir“ og fleira í þeim dúr. Gott dæmi um þetta er umræða sem skapast hefur í kringum brottrekstur Lewis Wallace, blaðamanns á „Marketplace“ sem birti pistil á síðunni „Medium“ undir yfirskriftinni „Objectivity is dead, and I’m okay with it“ , sem gæti útlagst á íslensku sem "Hlutlægnin er dauð og ég sætti mig við það". Þar heldur Wallace því fram að hlutleysi sé tálsýn, og vitnar þar til  reynslu sinnar sem trans-gender blaðamanns og að menn verði einfaldlega að horfast í augu við það.  Hann uppskar hins vegar brottrekstur frá „Marketplace“ á þeirri forsendu að í siðareglum miðilsins væri skýrt kveðið á um að starfsmenn verði að halda pólitískum skoðunum sínum fyrir fyrir sig.  Síðan birti Wallace annan pistil þar sem hann segir að að fjölmiðlar verði að breytast þannig að pláss sé fyrir ólíkar raddir sem búi til þá fjölbreytni sem miðlar segist vilja sýna. Þessi umræða hefur vakið talsverða athygli enda kemur hún inn á grundvallarspurningar fyrir bandaríska blaðamenn rétt eins og kollega þeirra um allan heim, m.a. hér á Íslandi. Í því samhengi má minna á 5. gr. Siðareglna BÍ, en þar segir m.a.: „Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.“  Einnig má benda á innanhússreglur RÚV en þar segir: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. Á samfélagsmiðlum.“ Margaret Sullivan hjá Washington Post er ein þeirra sem fjallar um þetta mál og bendir á að þarna séu á ferðinni gamlar og mikilvægar spurningar sem enn eigi eftir að ræða talsvert en aðstæður hafi nú skapað umhverfi þar sem þessi álitamál eru enn á ný komin í sviðsljósið. Sjá pistil Margaret Sullivan hér      
Lesa meira
Faebook-deiling: Skoðun innan ramma tjáningarfrelsis

Faebook-deiling: Skoðun innan ramma tjáningarfrelsis

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær konu af kröfu Péturs Gunlaugssonar um miskabætur vegna meiðyrða vegna hlekks sem hún deildi á Facebooksíðu sinni frá síðunni sandkassinn.com. Var deilingin talin lýsa skoðun og rúmast innan heimilda um tjáningarfrelsi. Í úrskurði Héraðsdóms segir að hlekkurinn hafi birtist á fésbókarsíðu stefndu í formi forskoðunar á því efni sem vísað var til á síðunni. Birtist þannig andlitsmynd af stefnanda sem hafði verið skeytt saman við afturenda á asna með fyrirsögninni ,,Pétur Gunnlaugsson er kúkur mánaðarins“, en við færslu sína hafði stefnda sjálf ritað orðin ,,ha ha ha“. Í rökstuðningi dómsins segir m.a.: “Þótt á það verði fallist með stefnanda að ekki sé útilokað að gildisdómar geti varðað refsingu sem móðganir samkvæmt 234. gr. hegningarlaga, verður engu að síður að leggja til grundvallar að stefnda hafi við fyrrgreindar aðstæður haft ríkulegt svigrúm til að tjá skoðun sína á stefnanda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu eða koma skoðunum annarra um þetta efni á framfæri. Er þá litið til þess að efni umrædds pistils laut beinlínis að framlagi stefnanda til þjóðfélagsumræðu, sem hann sjálfur var virkur þáttakandi í, en ekki að einkalífi stefnanda eða öðrum óskyldum atriðum. Leggja verður til grundvallar að frjáls skoðanaskipti og opinn umræða um þjóðfélagsmál sé einn af hornsteinum lýðræðislegs þjóðfélags, jafnvel þegar um er að ræða tjáskipti sem kunna að vera móðgandi eða valda hneykslan. Að öllu þessu virtu er því ekki hægt að fallast á að í tilviki stefndu hafi verið um að ræða tjáningu sem nauðsyn ber til að takmarka í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.” Sjá dóminn í heild hér
Lesa meira
Siðanefnd: Fréttatíminn ekki brotlegur

Siðanefnd: Fréttatíminn ekki brotlegur

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Fréttatíminn hafi ekki gerst brotleg við siðareglur félagsins í umfjöllun sinni í október síðast liðnum um friðað hús í Reykjavík og hugsanlegar bótakröfur tengdar því.  Úrskurð siðanefndar í held má sjá á siðavefnum undir úrskurðir eða með því að smella hér
Lesa meira

"Staðreyndavalkostir"

  “Staðreyndavalkostir” (alterenative facts) er orð sem Kellyanne Conway, ráðgjafi úr herbúðum Donalds Trump notaði um þá yfirlýsingu Sean Spicer blaðafulltrúa Hvíta hússins að fjölmiðlar hefðu farið rangt með stærð mannfjöldans sem fylgdist með innsetningarathöfn Trumps sl. föstudag og að fjölmiðlar væri í herferð gegn forsetanum.  Ummæli Conway í þættinum “Meet the Press”  þess efnis að framlag Spicer bæri að skoða sem staðreyndavalkost, hafa vakið upp talsverða umræðu í röðum bandarískra blaðamanna of hjá fjölmiðlaáhugafólki og m.a. talað um að hér sé gengið svo langt að reynt sé að draga í efa möguleikann á að tala um hlutlægan sannleika eða staðreyndir – sem þó er kjarninn í hugmyndum um eðli blaðamennsku þar í landi. Þetta er t.d. það sem kemur fram í áhugaverðum og gagnrýnum pistli sem David Uberti, fastur penni hjá Columbia Journalism Review. Sjá pistil Uberti hér  
Lesa meira
Itar, TASS/Polfoto

Rússland í dönskum fréttum

Rússland og Pútín forseti þess eru fréttaefni sem fá forgang í dönskum fjölmiðlum, janft í tengslum við ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, Úkraínumál og njósna- og tölvuhakkaramál í Bandaríkjunum. En Rússland og Pútín eru líka fréttaefni í Danmörku vegna stöðu sinnar sem helstu andstæðingar NATO, ESB og Danmerkur.  Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um Rússland í dönskum fjölmiðlum sem Norræni blaðamannaskólinn í Árósum hefur sent frá sér og er hluti af stærra verkefni sem enn er í gangi og miðar að því að kortleggja umfjöllun á Norðurlöndum um Rússland og umfjölun í Rússlandi um Norðurlönd. Þrátt fyrir daglega og oft á tíðum viðamikla umfjöllun um Rússland er það niðurstaða skýrslunnar að fjölmiðlanotendur sitji uppi með að takmarkaða mynd af stöðu mála þar og að Danir eigi því erfitt með að sikilja Rússland nútímans. Sjá einnig hér  
Lesa meira