- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í dag, 3. maí, er Alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis, en þetta er í þrítugasta sinn sem hann er haldinn hátíðlegur á vegum Sameinuðu þjóðanna. Af þessu tilefni sendi Alþjóðasamband blaðamanna, IFJ, frá sér yfirlýsingu þar sem segir meðal annars að víða í heiminum sé nú þrengt að fjölmiðlafrelsinu og að tjáningafrelsið sé ekki að nýtast sem sá drifkraftur mannréttinda sem vera skyldi.
Það var Allsherjarþing SÞ sem árið 1993 lýsti 3. maí Alþjóðadag fjölmiðlafrelsis. Deginum er ætlað að minna stjórnvöld í löndum heims á nauðsyn þess að þau virði skuldbindingar sínar gagnvart fjölmiðlafrelsinu. Í ár beinir Menningarstofnun SÞ, UNESCO, sjónum að „Mótun framtíðar réttinda: Tjáningarfrelsið sem driffjöður annarra mannréttinda“.
Af þessu tilefni hefur IFJ ályktað að því miður sé raunin önnur; tjáningarfrelsið sé langt frá því að þjóna sem sá drifkraftur fyrir önnur mannréttindi sem óskandi væri, og að á heildina litið leiki enginn vafi á að fjölmiðlafrelsi í heiminum sé að taka skref afturábak um þessar mundir.
Í ályktuninni segir ennfremur:
„Tölurnar tala sínu máli. Samkvæmt skrá IFJ yfir starfsfólk fjölmiðla sem hefur týnt lífi við vinnu sína féllu 68 manns úr þessum hópi í valinn á liðnu ári. Mjög fá þessara andláta hafa verið rannsökuð þar sem refsileysi fyrir dráp á fjölmiðlafólki hefur verið reglan víða um heim á liðnum árum.
IFJ vekur líka athygli á ofsóknum stjórnvalda í mörgum löndum á hendur fjölmiðlum, en í þeim hefur fjöldi blaðamanna verið handtekinn, en minnst 375 blaðamenn sátu bak við lás og slá á árinu 2022. Kína er nú það land sem heldur flestum blaðamönnum föngnum.
Stríðsátök og uppreisnir í löndum eins og Afganistan, Íran, Hong Kong, Mjanmar (Búrma), Perú, Súdan, Úkraínu og Jemen hafa líka sýnt að víða eru blaðamenn gerðir að vísvitandi skotmörkum og drepnir. Þrettán blaðamenn hafa látið lífið í átökunum í Úkraínu frá því innrás Rússa hófst þar í febrúar 2022. Og þúsundir afganskra blaðamanna og fjölskyldur þeirra hafa neyðst til að flýja land af ötta um líf sitt og limi.
En hætturnar sem steðja að blaðamönnum og blaðamennsku víða um heim eru margar. Stafrænu eftirliti og njósnaforritum er óspart beitt til að drepa umfjöllun í fæðingu og gera mörgum blaðamönnum ókleift að vernda heimildamenn sína, s.s. að upplýsingar um persónulega hagi þeirra og hvar þeir eru niður komnir sé gert opinbert.
Valdi er líka víða beitt gegn blaðamönnum og blaðamennsku með íþyngjandi refsilöggjöf og svokölluðum SLAPP-lögsóknum (e. Strategic Lawsuits against Public Participation) er líka óspart beitt til að hamla gegn tjáningarfelsinu og þvinga blaðamenn víða um heim til sjálfsritskoðunar.
Brothætt rekstrarumhverfi fjölmiðla, hnignun héraðsfréttamiðla og léleg hagsmunagæsla verkalýðsfélaga víða hefur allt lagst á eitt um að þvinga fréttastofur til að draga saman seglin, stórfækka starfsfólki og réttindamissi fyrir þá blaðamenn sem voru fyrir í veikustu stöðunni.
IFJ harmar þá staðreynd að þrátt fyrir þann góða vilja sem lýst er í ályktunum SÞ nr. 1738 og 2222 um vernd blaðamanna á átakasvæðum, þá hefur ekkert gerst í raun til að uppræta ofbeldi gegn blaðamönnum eða að gera starfsumhverfi þeirra öruggara og árásir gegn þeim ólöglegar.
IFJ kallar eftir tafarlausri innleiðingu nýrrar bindandi alþjóðalöggjafar sem ætlað er að styrkja fjölmiðlafrelsi í heiminum með því að þvinga stjórnvöld landa heims til að rannsaka og bregðast við árásum á fjölmiðla.“