- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannasambandið í Þýskalandi (DJV) segir að í kjölfar ritskoðunar Twitter á háðsádeilu tímaritinu Titanic, hafi endanlega komið í ljós að lögin um Netþjónustuábyrgð (NetsDG) séu ekki til þess fallin að þjóna tilgangi sínum að vinna gegn hatursorðræðu, heldur vinni þau beinlínis gegn tjáningarfrelsi. Því þurfi Sambandsþingið þýska að afnema þau svo fljótt sem verða má. Frank Uberall, formaður DJV segir að óttinn sem hafi verið viðraður strax þegar lögin voru í undirbúningi sé að raungerast, þ.e. að þar sem refsiábyrgð hvíli á útgáfu- og netfyrirtækjunum vegna ummæla og skrifa á miðlunum, sé ótti fyrirtækjanna við sektir og refsingu af hálfu ríkisvaldsins nú að ýta undir ótímabærar og algerlega ónauðsynlega eyðingu á efni sem verið er að birta á samfélagsmiðlum. Þannig sé verið að skerða verulega tjáningarfrelsi og sú mótsagnakennda staða sé komin upp, að vegna reglna ríkisins sem áttu að tryggja eðlilegt tjáningarfrelsi sé tjáningarfrelsið nú takmarkað af fyrirtækjunum af ótta við hugsanlegar sektir.
Þessi lög voru samþykkt í apríl á síðasta ári og tóku gildi nú um áramótin og skylda einkafyrirtæki til að fjarlægja ummæli á netinu sem eru meiðandi af ýmsum ástæðum samkvæmt þýskum hegningalögum.
Blaðamannasamtökin í Þýskalandi ásamt EFJ, Evrópusambandi blaðamanna, hvetja til þess að unnið sé gegn hatursorðræðu, en eftir öðrum leiðum og því sé brýnt að kalla hagsmunaaðila að borðinu til endurskoðunar laganna sem fyrst.