Stuðningur við fjölmiðla í ESB og á Íslandi

Í Morgunblaðinu í dag er athygli vakin á því að skattaumhverfi fjölmiðla er víðast hvar í Evrópu mun betra en á Íslandi. Þessu máli er hreyft í tilefni af því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur áform um að létta skattbyrði af rituðu máli og fjölmiðlum og eru ákvæði um slíkt í stjórnarsáttmálanum. Í Morgunblaðinu er vísað til nýlegrar skýrslu WAN -IFRA, alþjóðasamtaka útgefenda dagblaða og fréttamiðla, um opinberan stuðning við fjölmiðla í Evrópuríkjum.

Press.is hefur margsinnis fjallað um opinberan stuðning við fjölmiðla og Blaðamannafélagið hefur viðrað áhyggjur af rekstrargrundvelli fjölmiðla og m.a. bent á að stjórnvöld þurfi að móta stefnu til að tryggja sem best óháða og faglega fjölmiðlun, að „upplýsingakerfi lýðræðisins“ geti starfað eðlilega. Von er á tillögum frá nefnd um stuðning við fjölmiðla fyrir áramót, en gagnlegt kann að vera að skoða skýrslu WAN-IFRA sem kom út 23. apríl sl., en þar er að finna í mjög samandregnu formi  töflu yfir virðisaukaskatt á fjölmiðla í ESB (sjá einnig Mogga), tilvísanir í lagaumgjörð og dæmi þar sem dómstólar/úrskurðaraðilar hafa fjallað um opinberan stuðning af þessu tagi.  

Skýrslan í heild sinni