- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ríflega 30 blaðamenn hafa verið myrtir undanfarin tvö ár af skipulögðum glæpasamtökum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Samtök blaðamanna án landamæra (Reporters Without Borders) kynntu í síðustu viku. Skýrslan dregur fram þá hættu sem steðjar að blaðamönnum sem vinna að fréttum er tengjast slíkri starfsemi.
Skýrslan byggir meðal annars á samtölum við marga þeirra blaðamanna sem búa við stanslausar hótanir eða ótta við að á þá verði ráðist. Í mörgum tilvikum þarf að vakta heimili þeirra af lögreglu og dugar þó ekki til. Ekki er óalgengt að kveikt sé í heimilum þeirra eða öðrum fjölskyldumeðlimum ógnað.
Slík starfsemi er óháð landamærum. Ríflega 10 blaðamenn hafa verið drepnir í Brasilíu, Kólumbíu og Maxíkó það sem af er þessu ári. Þar ráða eiturlyfjahringir stórum svæðum og bregðast af mikilli hörku við ef blaðamenn reyna að varpa ljósi á starfsemi þeirra. Dráp á blaðamönnum eru einnig tíð í Indlandi og ýmsum ríkjum Afríku.
En Evrópa er heldur ekki undanskilin. Að minnsta kosti tveir rannsóknarblaðamenn hafa verið myrtir í tengslum við vinnu sína á undanförnum tveimur árum: Daphne Caruana Galizia, sem lést þegar bíll hennar var sprengdur í loft upp á Möltu í október 2017 og Ján Kuciak, sem var skotinn til bana ásamt frænda sínum á heimili sínu í Slóvakíu í febrúar 2018. Báðir þessir blaðamenn höfðu verið að fjalla um starfsemi ítölsku mafíunnar í heimalöndum sínum, einkum þar sem fjármál þeirra tengdust með einhverjum hætti kaupsýslumönnum og stjórnmálamönnum. Á Ítalíu er rithöfundurinn og blaðamaðurinn Roberto Saviano vaktaður dag og nótt af lögreglu. Paolo Borrometti, sem fjallað hefur um morð mafíunnar á Sikiley, býr við svipað ástand. Alls fengu meira en 200 ítalska blaðamenn einhvers konar lögvernd á síðasta ári.