- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Samstarfsvettvangur Evrópuráðsins um vernd blaðamennsku og öryggi blaðamanna, í samvinnu við Evrópusamband og Alþjóðasamband blaðamanna (EFJ og IFJ) og aðrar samstarfsstofnanir, kynntu í Brussel í vikunni ársskýrslu sína: War in Europe and the Fight for the Right to Report.
Í skýrslunni er rætt um afleiðingar stríðsins í Úkraínu og þörfina á vandaðri og óháðri blaðamennsku. Athygli er vakin á nauðsyn þess að aðildarríki Evrópuráðsins samræmi löggjöf sína um fjölmiðlafrelsi og öryggi blaðamanna, og því meini sem felst í skipulögðum lögsóknum gegn þátttöku í opinberri umræðu – þekkt undir ensku skammstöfuninni SLAPP (¨Strategic Lawsuits Against Public Participation). Sjónum er ennfremur beint að ástandinu í Belarús (Hvíta-Rússlandi), refsileysi fyrir glæpi unna gegn blaðamönnum, fangelsun blaðamanna og regluverki sem þrengir að fjölmiðlafrelsi og eðlilegri starfsemi blaðamanna. Meðal annarra málefna sem vikið er að í skýrslunni eru málefni almannaþjónustumiðla, eftirlit með starfsemi fjölmiðla, beiting njósnaforrita (spyware) og fleira.
289 atvik voru tilkynnt Nefndinni um vernd blaðamanna (Committe for the Protection of Journalists, CPJ) í 37 ríkjum á árinu 2022. Aðildarríki Evrópuráðsins eru hvött til að sýna meira frumkvæði í vernd frjálsrar blaðamennsku. Evrópuráðið sjálft er beðið um að „hvetja aðildarríkin til að grípa til aðgerða í þessu skyni og bregðast við ábendingum um brotalamir og tillögum um umbætur.“ Í skýrslunni er skorað á stofnanir og ríki Evrópu að lögleiða fjölmiðlafrelsislöggjöf Evrópusambandsins (European Media Freedom Act) og fylgja eftir jákvæðum aðgerðum á þessu sviði sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa áorkað.
Árið 2022 markaðist mjög af stríðinu í Úkraínu. Fleiri en 11.000 blaðamenn hafa hlotið skráningu hjá úkraínskum yfirvöldum til að flytja fréttir af innrásinni, en að flytja fréttir af slíkum hildarleik er miklum vandkvæðum bundið, sérstaklega af ástandinu á þeim svæðum sem Rússar halda hernumdum. Rússland er ekki lengur aðildarríki að Evrópuráðinu – því var vísað með öllu úr því í kjölfar innrásarinnar fyrir ári.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.