- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Alþjóðasamband blaðamanna, IFJ, hefur ákveðið að víkja rússneska blaðamannasambandinu, RUJ, úr alþjóðasamtökunum. Greidd voru atkvæði um brottvikninguna í framkvæmdaráði IFJ í Brussel í gær, 22. febrúar.
Brottvikningin tekur gildi þegar í stað, eftir að framkvæmdaráðið samþykkti hana. Brottvikning er hámarksrefsiúrræðið sem ráðið getur gripið til gegn aðildarfélagi sem álitið er hafa brotið gróflega gegn samþykkum IFJ.
Stjórn BÍ ákvað í lok janúar – í samfloti við systurfélögin í Noregi, Danmörku og Finnlandi – að tilkynna um úrsögn úr IFJ meðal annars vegna óánægju með að stjórnendur IFJ skyldu ekki aðhafast neitt í málum RUJ, sem stofnaði í október sl. héraðsfélög á hernumdum svæðum í Úkraínu (og í Abkasíu áður) og brotið með ýmsum öðrum hætti gegn samþykktum IFJ.
Blaðamannafélög Úkraínu fóru fram á það strax í október – og norrænu félögin sömuleiðis – að Rússum yrði umsvifalaust vikið úr IFJ af þessum sökum, en IFJ kaus að bregðast ekki við fyrr en nú. Úrsögn norrænu félaganna var þó ekki aðeins vegna þess að IFJ brást ekki við ákalli um brottvikningu Rússa úr IFJ, heldur einnig vegna þess að IFJ hefur ekki brugðist við áralangri gagnrýni norrænu félaganna og fleiri, um skort á gagnsæi og lýðræðislegum vinnubrögðum innan samtakanna.