- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Páll Vilhjálmsson, bloggari og framhaldsskólakennari, var í dag, föstudag, sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa farið með ærumeiðandi aðdróttanir um Arnar Þór Ingólfsson blaðamann og Þórð Snæ Júlíusson ritstjóra.
Þeir Þórður og Arnar stefndu Páli fyrir að hafa haldið því fram á bloggsíðu sinni að þeir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“ eins og greint er frá á Heimildinni. Umrædd bloggskrif Páls, á bloggsvæði mbl.is, tengdust umfjöllun blaðamannanna um svokallaða skæruliðadeild Samherja á vefmiðlinum Kjarnanum. Þeir Arnar Þór og Þórður starfa nú báðir, eftir sameiningu Stundarinnar og Kjarnans, á Heimildinni.
Páll Vilhjálmsson skrifaði fjölmargar bloggfærslur þar sem hann meðal annars sakaði blaðamennina tvo um að hafa komið að því að stela síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra í þjónustu Samherja, og byrla fyrir honum, og fullyrti að þeir yrðu ákærðir fyrir þessar sakargiftir. Páli var boðið að draga aðdróttanir sínar til baka. Því hafnaði hann og var í kjölfarið stefnt og ómerkingar krafist á tvennum tilteknum ummælum.
Gerði dómurinn Páli að greiða hvorum blaðamannana 300.000 krónur í skaðabætur, auk dráttarvaxta, og sakarkostnaðar uppá 750.000 kr. hvorum.