- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Nýjar siðareglur voru samþykktar á aðalfundi BÍ fimmtudagskvöldið 23. mars. Í þeim felast talsverðar breytingar á fyrri siðareglum, sem höfðu verið óbreyttar síðan árið 1991.
Í greinargerð frá stjórn BÍ sem fylgdi tillögunum að nýju reglunum segir:
„Tillögur þessar eru afrakstur vinnu sem hefur átt langan aðdraganda. Upp úr aldamótum fór að bera á óánægju í stéttinni með tiltekin ákvæði í gildandi siðareglum og var hafist handa við endurskoðun þeirra. Gagnrýnin laut almennt að því að reglurnar væru ekki nægilega skýrar og vel upp settar og ákvæði þóttu huglæg og matskennd – afstæð – svo sem ákvæði um tillitsemi. Ekki náðist samstaða um breytingarnar og var endurskoðun lögð til hliðar þangað til haustið 2021 þegar nýr formaður hóf þá vinnu að nýju. Öllum starfandi blaðamönnum var boðið að taka þátt í vinnuhópi og voru niðurstöður kynntar í lok síðasta árs. Friðrik Þór Guðmundsson sérfræðingur var ráðgjafi hópsins. Hann kynnti á fyrsta fundi niðurstöður úr skoðanakönnun meðal blaðamanna um siðareglur sem meðal annars sýndu fram á vilja meirihluta blaðamanna í þá veru að vert væri að einfalda og skýra reglurnar. Var það leiðarljós vinnu hópsins en einnig var markmiðið að undirstrika mikilvægi þeirra fyrir stéttina og samfélagið allt því eins og segir í inngangi er öflug og vönduð blaðamennska forsenda lýðræðis.“
Við endurskoðunina var horft til áður gildandi siðareglna, en þær voru settar árið 1991. Einnig var horft til siðareglna Alþjóðasambands blaðamanna (IFJ), auk siðareglna í nokkrum grannlöndum Íslands: Norðurlandanna, Bretlands, Belgíu og fleiri landa. Þá var horft til breytts umhverfis fjölmiðla og breyttrar stöðu blaðamanna með nýjum miðlunarleiðum. Þá hefur umræða um upplýsingaóreiðu og falsfréttir skapað þörf á að skerpa á ákveðnum hugtökum, gildum og vinnubrögðum til þess að auðvelda blaðamönnum og almenningi að gera greinarmun á blaðamennsku og annarri miðlun hvers kyns upplýsinga.
Loks segir í greinargerðinni: „Siðareglur eiga að vera lifandi og sátt þarf að ríkja meðal þeirra sem starfa í faginu hverju sinni. Það er von þeirra sem unnu þessar tillögur að þær fangi breytt viðhorf og starfsumhverfi en stuðli jafnframt að fagmennsku og leggja þær áherslu á gildi á borð við heiðarleika og sanngirni og hið mikilvæga hlutverk blaðamanna í þágu tjáningarfrelsisins og lýðræðis.“
Nýju siðareglurnar má lesa hér á Press.is.