- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Neanyahu, hefur komið á framfæri í gegnum ísraelska sendiráðið í Noregi kröfu um að Dagbladet biðjist formlega afsökunar á skopmynd sem birtist í blaðinu á dögunum. Skopmyndin sýnir ísraelska forsætisráðherrann ýta ísraelskum drúsa út af bekk sem á stendur „aðeins fyrir hvíta“ og er búkur forsætisráðherrans í laginu eins og hakakross.
Tilefni skopteikningarinnar er nýleg löggjöf í Ísrael sem margir telja að gerir þá sem ekki eru gyðingar að annars flokks borgurum. Sendiráðið í Noregi gerir þá kröfu að Dagbladet fjarlægi teikninguna og biðji Ísrael og gyðinga í Noregi og um heim allan opinberlega afsökunar á þessum and-gyðinglega áróðri.
Í viðtali við norska miðilinn Kampanje segir Geir Ramnefjell, stjórnmálaritstjóri Dagbladet, að það sé ekki ætlun eða stefna blaðsins að tengja ísraelska stjórnmálamenn við nazisma í fréttaskrifum eða pólitískum skrifum um heimsmálin og að innan blaðsins séu menn sammála um að brýnt sé að fara farlega í málum af þessu tagi. Hins vegar vilji Dagbladet undirstrika að satíra í skopmyndum hafi mun meira svigrúm en ritstjórnarleg skrif. Það liggi í eðli þessara skopmynda að ýkja hluti og ganga lengra en annars væri leyfilegt og í þessu tilfelli hafi hinn reyndi teiknari, Finn Graff, vissulega farið út að mörkunum. Geir Ramnefjell bendir enn fremur á að teikningar af þessum toga hafi farið fyrir siðanefnd og ekki verið taldar ámælisverðar – einmitt út af þessu eðli skopmyndarinnar – og hann reikni með að það sama eigi við um þessa. Hann er hins vegar ekki tilbúinn til að tjá sig um kröfur Ísraelsmanna.