- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í dag opnaði árleg sýning íslenskra blaðaljósmyndara í Esju, austurhluta Hörpu og við opnunina voru nokkrum ljósmyndurum veitt verðlaun fyrir bestu myndir ársins 2017. Veitt voru verðlaun í 7 flokkum auk bestu myndar ársins. Mynd ársins 2017 tók Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og er það mynd af Nínu Rún Bergsdóttur sem situr í stól húðflúrara sem er að flúra „I am the storm“ á öxl Nínu. Hún er þar ásamt konum sem allar fengu sér sama húðflúrið og höfðu allar orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu sama manns. Myndin er á margan hátt táknræn fyrir árið 2017 því reynsla þeirra kom af stað hreyfingu sem fékk heitið „Höfum hátt“.
Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Eyþór Árnason sem átti bestu mynd í fréttaflokki, Heiða Helgadóttir sem átti myndröð ársins og portrait ársins, Kristinn Magnússon sem átti bestu íþróttamynd ársins, Hörður Sveinsson sem tók bestu umhverfismynd ársins, Heiðdís G. Gunnarsdóttir sem fangaði bestu mynd í flokki daglegs lífs og Aldís Pálsdóttir sem tók tímaritamynd ársins 2017.
Sjö dómarar völdu 105 myndir á sýninguna í ár úr 732 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara. Þeir völdu þar að auki sigurmynd í hverjum flokki og mynd ársins. Dómnefndina í ár skipuðu Auðunn Níelsson, Helga Laufey Guðmundsdóttir, Gígja Einarsdóttir, Gunnar Sverrisson, Valdimar Thorlacius, Þórdís Erla Ágústsdóttir og sænski fréttalójsmyndarinn Paul Hansen sem jafnframt var formaður dómnefndar.