- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Enn einu sinni hefur Mannréttindadómstóll Evrópu snúið við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands þegar kemur að tjáningarfrelsi blaðamanns. Í morgun var birt niðurstaða dómstólsins þar sem segir að Hæstiréttur hafi brotið á tjáningarfrelsi Steingríms Sævars Ólafssonar með því að dæma hann árið 2013 fyrir ummæli sem birtust á Pressuni í aðdraganda kosninga til Stjórnlagaráðs. Steingrímur var þá ritstjóri Pressunnar og ummælin beindust að Ægi Geirdal sem þá var í framboði. Hæstiréttur dæmdi Steingrím til að greiða Ægi 200 þúsund krónur í miskabætur auk 800 þúsund króna málskostnaðar. Héraðsdómur hafði áður sýknað Steingrím af stefnunni en Hæstiréttur sneri niðurstöðunni við og nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu snúið við niðurstöðu Hæstaréttar með svipuðum rökum og komu fram hjá Héraðsdómi.
Dómur Mannréttindadómstólsins er mikið fagnaðarefni og undirstrikar enn og aftur mikilvægi faglegra vinnubragða í blaðamennsku þegar fjallað er um vandmeðfarin mál, segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ. Það er full ástæða til að óska Steingrími til hamingju með niðurstöðuna. Sú þrautseigja sem hann hefur sýnt í þessu máli er aðdáunarverð og er okkur öllum sem berum hagsmuni vandaðrar blaðamennsku fyrir brjósti til eftirbreytni.
Hjálmar sagði einnig að því miður væri niðurstaða Mannréttindadómstólsins enn einn áfellisdómurinn yfir skilningi Hæstaréttar Íslands á lömálum faglegrar blaðamennsku og mikilvægi tjáningarfrelsins fyrir lýðræðið. Liðin tíð og fyrri dómar mannréttindadómstólsins bæru þeirri staðreynd sorglegt vitni og undirstrikuðu mikilvægi þess að Hæstiréttur tileinkaði sér ný viðhorf í þessum efnum og léti tjáningarfrelsið njóta vafans. Þá væri það athyglisvert að í dómi Mannréttindadómstólsins nú væri vitnað í fyrri mál hérlend sem unnist hefðu fyrir dómstólnum, þ.e. mál þeirra Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur, auk fjölda annarra fordæma frá nágrannalöndunum í Evrópu. Hæstiréttur hefði það þannig ekki sér til afsökunar að þessi viðhorf væru ný af nálinni.
Sjá niðurstöðu Mannréttindadómstólsins hér
Dóma Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur má sjá hér
Sjá viðtal RÚV við Steingrím Sævar hér