- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag dóm í tveimur dómsmálum sem höfðað var gegn Sólartúni ehf, útgáfufélagi Mannlífs, og Reyni Traustasyni, ritstjóra Mannlífs, fyrir að endurbirta á vef Mannlífs innihald minningargreinar. Bæði Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, og Atli Viðar Þorsteinsson, höfundur minningargreinar sem birt var á vef Mannlífs, unnu mál sín gegn Reyni Traustasyni og Sólartúni ehf. Í dómi beggja mála er tekið sérstaklega fram að dómurinn skuli birtur í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu samkvæmt kröfu í málinu. Reynir og Sólartún ehf þurfa að greiða Árvakri 50 þúsund krónur auk dráttarvaxta, og Atla Viðari 300 þúsund krónur auk dráttarvaxta, sbr. frétt Ruv.is.
Árvakur stefndi Reyni sem ritstjóra Mannlífs og útgáfufélaginu fyrir fréttaskrif upp úr minningargreinum sem birtust í Morgunblaðinu. Siðanefnd Blaðamannafélagsins hafði komist að þeirri niðurstöðu árið 2020 að skrifin væru ekki brot á siðareglum, þar sem birting minningargreina í dagblaði væri opinber birting. Morgunblaðið ákvað þó að höfða mál gegn Reyni og útgáfufélagi Mannlífs á þeirri forsendu að öll endurbirting minningargreina í öðrum miðlum væri óleyfileg nema með samþykki höfunda og Morgunblaðsins.
Atli Viðar Þorsteinsson stefndi einnig Reyni og útgáfufélagi Mannlífs sem höfundur minningargreinar. Minningargrein sem hann skrifaði um bróður sinn var endurbirt á vef Mannlífs og velti hann því fyrir sér á sínum tíma hvar ábyrgð ritstjóra Mannlífs liggi gagnvart syrgjendum.