- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í tilefni að alþjóðabaráttudegi kvenna, 8. mars, beinir Alþjóðasamband blaðamanna, IFJ, kastljósinu að kvenblaðamönnum sem leggja á sig mikla áhættu og erfiði við að flytja fréttir af átakasvæðum heimsins, í nafni upplýsingafrelsis.
Tíu fréttakonur létu lífið á vettvangi á árinu 2022, flestar við öflun frétta af átakasvæðum.
Kvenblaðamenn standa frammi fyrir gríðarlegum áskorunum við fréttaöflun á vettvangi á átakasvæðum, frá hernaðarárásum, hótunum, ógnunum frá lögreglu, eftirliti og kynbundnu ofbeldi. Öryggi þeirra er stöðugt ógnað, og margar hafa komið sér upp sinni persónulegu aðferð til að tryggja öryggi sitt.
Önnur vinnutengd vandamál koma upp í vissum heimshlutum, svo sem samninga- og tryggingaleysi, skortur á öryggisbúnaði sem lagaður er að líkama kvenna, skortur á þjálfun, gloppur í stafrænu öryggi, og lág laun sem knýja margar til að taka auka-áhættu til að freista þess að láta enda ná saman.
En að stunda fréttaflutning af átakasvæðum skapar kvenblaðamönnum líka tækifæri til að hafa áhrif á túlkun átakanna sem um ræðir og skynjun almennings á þeim, storkar kynbundnum staðalímyndum og víkkar almennt út sjónarhorn fréttaflutnings. Í vissum tilvikum reynist það mikill kostur að vera kona í þessum aðstæðum, þar sem það veitir aðgang að stöðum og fólki sem karlblaðamenn ættu erfiðara með.
Á vef IFJ má lesa dæmisögur frá blaðakonum af vettvangi átaka víða um heim.