- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Á nýjasta lista Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi er Ísland í 18. sæti, þremur neðar en árið áður. Í dag, á Alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis, var birtur árlegur alþjóðlegur samanburðarlisti yfir fjölmiðlafrelsi (World Press Freedom Index). Ísland kemur frekar illa út nú – fellur um þrú sæti milli ára, niður í 18. sæti.
Skammt er síðan annar árlegur alþjóðlegur samanburðarlisti var birtur, yfir stöðu lýðræðis (LDI, Liberal Democracy Index). Á þeim lista er Ísland í 29. sæti og þar með langt fyrir neðan hin Norðurlöndin og önnur lönd sem við erum vön að bera okkur saman við.
Fyrst um fjölmiðlafrelsislistann: Fyrir hrun var Ísland jafnan í efstu þremur sætum listans, ósjaldan í því efsta. Við hröpuðum fyrst niður listann árið 2015 vegna pólitískra viðbragða við umfjöllun fjölmiðla um lekamálið svokallaða en náðum okkur upp í 10. sæti árið 2017 en höfum mjakast niður listann síðan.
En það er ekki nóg með að Ísland mjakist niður samanburðarlistann yfir fjölmiðlafrelsi, heldur hangir það í 29. sætinu á alþjóðlegum samanburðarlista sem mælir stöðu lýðræðis í löndum heims (e. Liberal Democracy Index, LDI). Það eru fjölþjóðleg frjáls félagasamtök sem kalla sig Varieties of Democracy (V-Dem), sem heldur þeim lista úti, en ábyrg fyrir rekstri þeirra er V-Dem-stofnunin sem er með skráð varnarþing í Gautaborg í Svíþjóð. Hún gefur árlega út svonefnda Lýðræðisskýrslu, þar sem samanburðarlistinn er birtur, lönd heimsins eru flokkuð í fjóra flokka og rakið hver þeirra eru að þróast í átt til meira lýðræðis og hver þeirra í öfuga átt, þ.e. til aukinnar valdstjórnar.