- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) sendu frá sér yfirlýsingu fyrir helgina þar sem tekið er undir fordæmingu norska Blaðamannafélagsins á ákvörðun bandarískra stjórnvalda að ákæra Julian Assange fyrir brot á njósnalöggjöf Bandaríkjanna. Í samþykkt norska Blaðamannafélagsins segir m.a.: „Það að fletta hulunni af leynilegum upplýsingum sem skipta máli fyrir samfélagslega umræðu er grundvöllur almannaþjónustuhlutverks fjölmiðla. Með því að birta upplýsingar um sem valdamiklir hagsmunaaðilar vilja halda leyndum geta fjölmiðlar veitt valdinu aðhald. Þess vegna er það lykilatriði að slík birting sé skilgreind sem hluti af frelsi fjölmiðla, jafnvel þótt stjórnvöld vilji ekki opinbera slíkar upplýsingar.“
Í yfirlýsingu IFJ og EFJ segir að samtökin telji þessa ákæru fela í sér glæpavæðingu blaðamennskunnar með því að setja hættulegt fordæmi sem nota megi til að ákæra blaðamenn sem sinna því hlutverki sínu að veita upplýsingar um mál sem varða almannaheill. Með því að fylgja röksemdafærslu bandarískra stjórnvalda væri hægt að ákæra hvern sem er fyrir brot á njósnalöggjöf sem birtir upplýsingar sem stjórnvöldum í BNA þóknast að skilgreina sem leynilegar.Því fordæma bæði þessi samtök, IFJ og EFJ, þessa tilraun til að skerða frelsi fjölmiðla og möguleika þeirra til að veita valdinu aðhald.
Sjá einnig hér