- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Gervigreind „mun breyta blaðamennsku meira á næstu þremur árum en blaðamennska hefur breytzt á undanförnum 30 árum,“ spáir David Caswell, yfirpródúsent hjá BBC News.
Með því að „endurblanda“ upplýsingar af víðáttum veraldarvefsins munu gervigreindarforrit eins og ChatGDP – sem eru fær um að skrifa upp á eigin spýtur nýjan texta byggðan á öðrum heimildum (eru „generative“ eins og það heitir á ensku) – „hræra í sjálfum grundvelli hefðbundinnar blaðamennsku:“ blaðagreininni. Í stað þess að fréttir séu fyrstu drög að sögu samtímans munu, að sögn Caswells, fréttir verða „eins konar orðasúpa sem ólíkir hópar fólks upplifa með ólíkum hætti“.
Caswell kynnti þennan íhugunarverða spádóm sinn á málstofu um blaðamennsku og gervigreind sem haldin var á alþjóðlegri blaðamannaráðstefnu í Perugia á Ítalíu fyrir skemmstu.
The Economist umorðar spádóm Caswells með þessum hætti: „Ris fréttaróbotsins felur í sér grundvallarbreytingar á eðli fréttaflutnings“.
Eftir því sem gervigreindartækninni fleygir fram er hún stöðugt að taka við nýjum hlutverkum, líka í starfi fjölmiðlafyrirtækja. Þar með talið fréttaöflun: Hjá Reuters-fréttastofunni er gervigreind beitt til að koma auga á mynstur í stórum gagnapökkum. AP beitir henni til að uppgötva fréttnæma viðburði með því að skanna færslur á samfélagsmiðlum. Á ráðstefnunni í Perugia sýndi einn fyrirlesarinn, Nick Diakopoulos við Northwestern-háskóla í Bandaríkjunum, hvernig ChatGDP-gervigreindarforritinu er beitt til að meta fréttnæmi nýbirtra fræðigreina.
ChatGDP og önnur slík „generatíf“ gervigreindarforrit eru líka farin að verða betri í að skrifa og umskrifa texta. Semafor, frumkvöðlafyrirtæki í veffréttum, nýtir gervigreind til að prófarkalesa fréttir og greinar. Í nóvember sl. hóf norska fjölmiðlafyrirtækið Schibsted að nota gervigreind til að umskrifa og stytta lengri greinar til að passa til birtingar á Snapchat. Rekendur fjölmiðlafyrirtækja sjá tækifæri í að beita gervigreind til að laga birt efni að mismunandi birtingarformum eða markhópum.
En hvað með hlutverk blaðamanna sjálfra í þessari þróun? Eins og í öðrum atvinnugreinum segja atvinnurekendur í fjölmiðlageiranum að gervigreind sé aðeins hjálpartæki en komi ekki í stað fagfólks. En þetta kann að breytast. „Við erum ekki hér til að bjarga blaðamönnum, við viljum bjarga blaðamennsku,“ hefur Economist eftir Ginu Chua, ritstjóra hjá Semafor. Atvinnugreinin blaðamennska þurfi á allri þeirri aðstoð að halda sem í boði sé. Því til vitnis er nefnt að 20. apríl síðastliðinn var vefmiðlinum BuzzFeed lokað, fréttamiðli sem á tímaibli óx gríðarlega og hlaut Pulitzer-verðlaun. Viku síðar kom til fjöldauppsagna hjá Vice, öðrum vefmiðli sem á tímabili reið með himinskautum; orðrómur er uppi um að gjaldþrot blasi við. Og hér á Íslandi er skemmst að minnast örlaga Fréttablaðsins. Lisa Gibbs á AP-fréttastofunni segir því: „Hvað varðar ógnir við störf blaðamanna er gervigreind ekki efst á lista.“