Hörður, Heiða, Vilhelm og Hallur verðlaunuð

Verðlaunahafarnir: Hörður Sveinsson, Heiða Helgadóttir, Vilhelm Gunnarsson og Hallur Karlsson, ásamt…
Verðlaunahafarnir: Hörður Sveinsson, Heiða Helgadóttir, Vilhelm Gunnarsson og Hallur Karlsson, ásamt Eiríki Birni Björgvinssyni (lengst t.v.), sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar og Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélags Íslands (lengst t.h.). Vilhelm er formaður BLÍ. Mynd/Anton Brink

Við opnun sýningarinnar Myndir ársins í sal Ljósmyndasafns Reykjavíkur á laugardaginn voru veitt verðlaun fyrir myndir ársins 2022 í sjö flokkum, auk bestu myndar ársins.

Mynd ársins 2022 tók Hörður Sveinsson af Hugrúnu Geirsdóttur að lesa fyrir dætur sínar Heklu og Ingveldi. Umsögn dómnefndar um myndina: Daglegt líf á Íslandi fangað í sinni tærustu mynd, falleg stund þar sem sumar sólin er bæði blessun og vandræði. Skíman er notuð til að lýsa bókina en verður litlum augum ofviða þegar skal festa svefn. Ljósmyndarinn fangar þetta fallega augnablik á nærgætinn og fallegan hátt.

Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Heiða Helgadóttir, ljósmyndari Stundarinnar, sem átti fréttamynd ársins, portrett ársins og myndröð ársins, Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, sem átti íþróttamynd ársins og umhverfismynd ársins og Hallur Karlsson sem átti mynd ársins í opnum flokki. 

Á sýninguna Myndir ársins voru valdar 108 myndir frá 22 blaðaljósmyndurum og að auki voru valdar sigurmyndir í hverjum flokki. Dómnefndina í ár skipuðu John Moore, bandarískur verðlaunaljósmyndari sem starfar meðal annars fyrir Getty Image, en hann var formaður dómnefndar, Árni Torfason, Pjetur Sigurðsson, Haraldur Guðjónsson, Sigríður Ella Frímannsdóttir, Sigríður Kristín Birnudóttir og Íris Dögg Einarsdóttir. 

Blaðaljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1976 og starfar innan Blaðamannafélags Íslands. Sýningin Myndir ársins hefur verið haldin síðan 1979 og er ein fjölsóttasta ljósmyndasýningin landsins ár hvert. Stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands í ár skipa Vilhelm Gunnarsson (formaður), Anton Brink, Eyþór Árnason, Hallur Karlsson, Hulda Margrét Óladóttir og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir. Hægt að nálgast bók með öllum myndum sýningarinnar í safnbúð Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Sýningin verður opin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur frá 29. apríl til 27. maí 2023. 

 

Mynd ársins / Daglegt líf 

Mynd ársins

Ljósmyndari: Hörður Sveinsson

Myndatexti: Hugrún Geirsdóttir les fyrir dætur sínar, Heklu og Ingveldi.

Rökstuðningur dómnefndar: Daglegt líf á Íslandi er fangað í sinni tærustu mynd, falleg stund þar sem sumar sólin er bæði blessun og vandræði. Skíman er notuð til að lýsa bókina en verður litlum augum ofviða þegar skal festa svefn. Ljósmyndarinn fangar þetta fallega augnablik á nærgætin og fallegan hátt. 

 

Fréttamynd ársins 

Fréttamynd ársins

Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir

Myndatexti: Mikill fjöldi menntskælinga mótmælti við Menntaskólann í Hamrahlíð til stuðnings þolendum kynferðisofbeldis og kröfðust breytinga á viðbrögðum í slíkum málum. 

Rökstuðningur dómnefndar: Myndin fangar stórt fréttamál ársins á mjög áhrifaríkan hátt þegar unga fólkið tók málin í sínar hendur og vildu breytingar, þau lýstu vegin og eldri kynslóðir fylgdu. Myndin túlkar þessa atburðarás á mjög myndrænan hátt. 

 

Íþróttamynd ársins 

Íþróttamynd ársins

Ljósmyndari: Vilhelm Gunnarsson

Myndatexti: Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Sveindísi Jane eftir tapleik Íslands gegn Portúgal í umspilsleik fyrir laust sæti á HM í Ástralíu.

Rökstuðningur dómnefndar: Ísland var grátlega nærri því að komast á lokakeppni HM í Ástralíu. Myndin fangar einstaklega vel vonbrigði leikmanns Íslands. Það var hart barist í þessum leik. Allt lagt í sölurnar. En stundum er það því miður ekki nóg. En það er alltaf næst. 

 

Opinn flokkur 

Opinn flokkur

Ljósmyndari: Hallur Karlsson

Myndatexti: Ávaxtakaka.

Rökstuðningur dómnefndar: Myndin er einföld en samt í senn afskaplega flókin. Hvert einasta smáatriði undirbúið fyrir loka mómentið þegar hunangi er hellt yfir kökuna og ljósmyndarinn frystir það akkúrat á réttu augnabliki. 

 

Portrett ársins 

Portrett ársins

Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir

Myndatexti: Helgi Ás Helgason bassaleikari.

Rökstuðningur dómnefndar: Einstakt pottrétt þar sem ljósmyndatækninni er beitt á nýstárlegan hátt til að túlka viðfangsefnið. Línurnar standa fyrir strengi bassans eða sveiflu tónlistarinnar eða eitthvað allt annað.

 

Umhverfismynd ársins 

Umhverfismynd ársins

Ljósmyndari: Vilhelm Gunnarsson

Myndatexti: Reynisfjara komst enn og aftur í fréttirnar en ekkert lát var á háskaleikjum ferðamanna í fjörunni. Erlendur ferðamaður lést í júní þegar alda hreif hann með sér úr fjörunni. 

Rökstuðningur dómnefndar: Brimið tekur á sig andlitsmynd. Ljósmyndarinn nær að fanga einstakt augnablik og þar með að segja á myndrænan hátt frá hættu sem býr í Reynisfjöru. 

 

Myndröð ársins 

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Myndröð ársins

Ljósmyndari: Heiða Helgadóttir

Myndatexti: „Að jörðu skaltu aftur verða“. Aðalsteinn Aðalsteinsson bóndi frá Vaðbrekku í Jökuldal lést 1. apríl 2022, 90 ára að aldri. Hann lét eftir sig eiginkonu sína til 64 ára, Sigríði Sigurðardóttur, sex uppkomin börn og stórfjölskyldu sem telur í dag um hundrað manns. Fjölskyldan sá um flest sem að andlátinu kom enda margir í fjölskyldunni heilbrigðisstarfsmenn. Útförin var gerð frá Egilsstaðakirkju og strax eftir athöfn keyrðu bræðurnir þrír með kistuna til Reykjavíkur í brennslu. Hinsta ósk Aðalsteins var að láta dreifa ösku sinni hjá Pabbasteini fyrir ofan bæinn sinn Vaðbrekku. Eftir langa ævi og farsælt ævistarf sameinaðist Aðalsteinn jörðinni sem hann unni svo mjög, umkringdur afkomendum sem ávallt voru mikilvægasta arfleifð hans.

Rökstuðningur dómnefndar: Jarðarför er einstaklega persónuleg stund fyrir fjölskyldu og ekki oft sem ljósmyndarar fylgjast með þess háttar athöfn. Ljósmyndarinn kemur því til skila á einstaklega smekklegan og hjartnæman hátt.