- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Arman Soldin, fréttamaður frönsku fréttastofunnar Agence France Presse (AFP), lét lífið í sprengjuárás Rússa við Chasiv Yar, nærri Bakmút í austurhluta Úkraínu í gær, 9. maí. Í fréttatilkynningu um atvikið frá Evrópu- og Alþjóðasambandi blaðamanna, EFJ og IFJ, senda samböndin fyrir hönd alla aðildarfélaga sinna samúðarkveðjur til aðstandenda, vinnufélaga og vina Soldins.
Árásin sem kostaði Soldin lífið var gerð kl. 4:30 að morgni að staðartíma í útjaðri smábæjarins Chasiv Yar, sem er skammt frá Bakmút í Donetsk-héraði í Austur-Úkraínu sem hefur verið blóðugasti vettvangur innrásarstríðs Rússa í landinu síðastliðna mánuði. Fjórir starfsfélagar Soldins frá AFP og hópur úkraínskra hermanna lifðu árásina af. Soldin hafði verið að störfum á vettvangi í Úkraínu síðan í september 2022. Hann var 32 ára, franskur ríkisborgari en fæddur í Sarajevo.
„Dauði hans er hræðileg áminning um þá áhættu sem blaðamenn taka á sig á hverjum degi við að flytja fréttir af átökunum í Úkraínu,“ sagði Fabrice Fries, yfirmaður AFP.
„Við erum harmi slegin yfir þessum sorglegu fréttum, aðeins hálfum mánuði eftir andlát Bohdans Btik. Starf Arman Soldins skipti sköpum við að koma myndefni af vettvangi átakanna í Úkraínu og upplýsa almenning um víða veröld um veruleika stríðsins. Við stöndum í þakkarskuld við alla þá blaðamenn sem hafa hætt lífi sínu frá því átökin hófust,“ sagði Maja Sever, forseti EFJ.
Bohdan Btik var úkraínskur aðstoðarmaður ítalsks blaðamanns, sem varð fyrir skoti rússneskrar leyniskyttu á vettvangi í Kherson í Suður-Úkraínu 26. apríl síðastliðinn.
Forseti úkraínska blaðamannafélagsins NUJU, Sergiy Tomilenko, sagði í Twitterfærslu:
„Hræðilegar fréttir. Sjónvarpsfréttamaðurinn @ArmanSoldin fyrir @AFP og @canalplus lét lífið á vígstöðvunum. Þetta er annað morðið á blaðamanni á síðustu tveimur vikum í Úkraínu, sem Rússlandi ber að vera refsað fyrir.“