- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Fjölmiðlaáhugafólk í Ameríku er nú margt hvert hugsi yfir eðli og framgani fjölmiðlaumfjöllunarinnar almennt, en tilefnið er harmleikur í Santa Fe framhaldsskólanum í Texas sl. föstudag þegar byssumaður drap 10 manns. Ýmsir höfðu hálfpartinn búist við að fjöldamorðin í Parkland í Florída í febrúar, hefðu gerbreytt allri umfjöllun um mál af þessu tagi, en þá gripu nemendur sjálfir til gríðarlegra mótmæla og þau viðbrögð og nálgun fjölmiðla á þau vörpuðu að mörgu leyti nyju ljósi á málið í heild sinni. Það virðist ekki ætla að gerast núna, og á vefsíðu Columbia Journalism Review er m.a. fjallað um hvernig svona umfjöllun er að falla í hefðbundinn farveg, þar sem atburðum er lýst af og síðan ekki söguna meir. Lýsingarnar eru allar nákvæmar og hafa verið endurteknar í hverju ódæðinu á fætur öðru undanfarin misseri, og vissulega er leitað viðbragða yfirvalda sem í aðalatriðum falla í tvo flokka, annars vegar að banna eða takmarka byssueign eða með einhverjum hætti og hins vegar að víggirða skólana til að gera þeim kleift að verjast byssufólki. Á sama tíma er ógnin af byssufólki orðin hluti af daglegu lífi framhaldsskólanema í BNA, eins og fram kom í viðtali við skólastúlku í Santa Fe í staðbundinni sjónvarpsstöð á föstudag. En síðan hefst einfaldlega nýr fréttadagur, og á laugardag voru morðin í Santa Fe ekki lengur stóra málið, heldur konuglegt brúðkaup hjá Harry Bretaprinsi!