- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
„Tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla er aðalatriði í nútíma samfélagi og takmarkanir á þessum réttindum hljóta að vera algerar undantekningar sem stundum eru þau nauðsynlegar.“ Þetta sagði Harlem Désir, talsmaður OSCE varðandi frelsi fjölmiðla á ráðstefnu um EFJ sem haldin var í Brussel í vikunni. Hann bætti því við að þegar vandamálin og viðfangsefnin sem fjölmiðlar væru að fást við séu flókin og margslungin þá sé yfirveguð nálgun besta leiðin til að nálgast þau. Því þyrfti að fara saman vönduð og siðleg blaðamennska og viðurkenning á því að ríkisvaldið þyrfti að geta sett ákveðinn regluramma þar semtiltekin orðræða væri takmörkuð, en sá rammi þyrfti að vera í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar reglur og í samræmi við eðli máls.
Í gær, þriðjudaginn 6 mars lauk formlega verkefni sem Evrópusamband blaðamanna, EFJ, stóð fyrir ásamt fleirum undir yfirskriftinni „Fjölmiðlar gegn hatri“. Umræðan á ráðstefninni tók á ýmsum þáttum hatursorðræðu í fjölmiðlum, en fram kom að það er fyrst og fremst í hinum óritskoðaða almannarými á Internetinu sem hatursfull umræða birtist. Ritstýrðir fjölmiðlar eru miklu síður vettvangur fyrir slíka umræðu, þó ástæða sé vissulega til að hafa áhyggjur af götublaðavæðingu þar sem slík umræða er nýtt til að auka sölu og neyslu á viðkomandi miðlum. Það mætti rekja til harðnandi samkeppni og markaðsvæðingar á fjölmiðlamarkaði og því mikilvægt að blaðamenn og aðrir starfsmenn miðla létu ekki undan slíkum þrýstingi en stæðu með faglegum gildum blaðamenskunnar. Boð og bönn í þessum efnum gætu hugsanlega skipt einhverju máli, einkum varðandi upplýsingaveitur á Netinu, en í hinum eiginlegu fjölmiðlum væri lykilatriðið fagleg, ábyrg og siðleg blaðamennska. Þetta voru m.a. skilaboð Chris Frost frá Bretlandi (NUJ) og einnig Mogens Blicher Bjerregård,hins danska forseta EFJ sem sagði: „Þetta eru tímar mikilla breytinga og þeir kalla á gagnrýna hugsun hjá bæði blaðamönnum og almennum borgurum“.