- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Ísland hefur samþykkt að draga fulltrúa sinn út úr starfi fjölmiðlanefndar. Ástæðan er eðlisbreyting sem er að verða á starfi nefndarinnar að undanförnu þar sem nefndin er sérstaklega úrskurða og gefa út álit á grundvelli 26 greinar fjölmiðlalaga, um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla.
Áður hefur nefndin vísað í þessa gein samhliða því að verið er að fjalla um önnur mál, s.s. samkrull viðskiptaboða og fréttatengds efnis, og einu sinni varðandi efnistök verktaka í dagskrárgerð á RÚV. Tvö síðustu álit nefndarinnar sem birt eru á heimasíðu hennar snúast hins vegar gagngert um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum og eru til komin vegna kvartana sem nefndin telur sig þurfa að rannsaka, úrskurða um og gefa álit sitt á. Sú grein Fjölmiðlalaganna sem fjallar um lýðræðislegar grundvallarskyldur fjallar að hluta um matskennd atriði og lítur að því að fjölmiðlar eigi að „uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.“ Bendir BÍ á að þegar þessi grein var samþykkt á Alþingi hafi sérstaklega verið tekið fram í nefndaráliti að þessi grein væri refsilaus, enda um stefnuyfirlýsingu laganna varðandi lýðræðislegar grundvallarskyldur að ræða. Blaðamannafélagið óskaði eftir upplýsingum frá Fjölmiðlanefnd um viðmið sem nefndin setti varðandi það hvaða og hvers konar mál húni teldi ástæðu til að fjalla um. BÍ skilur þau svör þannig að nefndin teldi sér skylt að fjalla um öll mál í fjölmiðlum á grundvelli rannsóknar- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í svarbréfi BÍ til fjölmiðlanefndar segir að í þessu felist að enginn áskilnaður sé „um aðild eða tímamörk á birtingu svo dæmi séu tekin. Það er auðvitað ótæk niðurstaða og vandséð hvernig það leiðir sjálfkrafa af rannsóknarreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.“
Í bréfi BÍ til Fjölmiðlanefndar er vitnað í nefndarálit meirihluta menntamálanefndar sem minnihluti nefndarinnar tók undir. Í nefndarálitinu segir: „að ákvæðið um lýðræðislegar grundvallarreglur beri að túlka sem stefnuyfirlýsingu um grundvallarreglur í fjölmiðlun en ekki sé með því ætlunin að setja tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla auknar skorður.” BÍ segir síðan í bréfinu: „Íþyngjandi og óeðlilegar skorður á táningafrelsið eru hins vegar reistar ef stjórnsýslunefnd á vegum framkvæmdavaldsins hyggst yfirfara og krefja blaðamenn upplýsinga og gagna um fréttamat þeirra og dagleg vinnubrögð á grundvelli ábendinga frá Pétri og Páli í stað þess að slíku sé einfaldlega vísað til siðanefndar BÍ eða dómstóla.“
Bréf BÍ endar síðan á því að tilkynna um ákvörðunina um að draga fulltrúa sinn út úr starfi Fjölmiðlanefndar:
„Af ofangreindu má vera ljóst að fjölmiðlanefnd er komin langt út fyrir valdsvið sitt varðandi þau erindi sem henni hafa borist og hún hefur kosið að láta sig varða. Það er einboðið að fulltrúar Blaðamannafélags Íslands geta ekki tekið þátt í starfi fjölmiðlanefndar meðan nefndin er á þessari óheillabraut. Félagið mun jafnframt að gefnu tilefni beina því til félagsmanna sinna að þeir íhugi hvort erindi frá fjölmiðlanefnd varðandi 26. grein laga um lýðræðislegar grundvallareglur þarfnist svars í ljósi þeirra lögskýringagagna sem að framan greinir og finna má meðal annars í greinargerð og nefndaráliti meirihluta og minnihluta menntamálanefndar þegar frumvarp um fjölmiðla varð að lögum.“
Hér að neðan má sjá svarbréf BÍ til Fjölmiðlanefndar í heild:
Fjölmiðlanefnd
Borgartúni 21
105 Reykjavík
b.t. Elfa Ýr Gylfadóttir
Reykjavík 15. mars 2019
Undirritaður þakkar svar fjölmiðlanefndar dags. 14. mars 2019 við fyrirspurn félagsins dags. 2. mars 2019 varðandi gildissvið 26. gr. fjölmiðlalaga í ljósi breytinga sem gerðar voru á 3. mgr. 11. gr. með breytingu á fjölmiðlalögum nr. 54/2013 (eignarhald og endurbætur).
Í níu síðna ítarlegu svari nefndarinnar tekst þó nefndinni einhvern veginn ekki að svara því beint sem um er spurt, þ.e.a.s. „hvaða hlutlæg kennimörk fjölmiðlanefnd hefur til viðmiðunar þegar hún ákveður að taka til meðferðar efni sem birst hefur í íslenskum fjölmiðlum og birta álit sitt þar að lútandi og hvaða formkröfur eru gerðar til kæra sem nefndinni berast að öðru leyti en leiða má af lögunum og 3. og 4. gr. starfsreglna nefndarinnar, sem settar voru áður en ofangreind lagabreyting var gerð.”
Ef reynt er að ráða í svar nefndarinnar má ef til vill draga eftirfarandi ályktanir:
a) Að fjölmiðlanefnd sé „skylt samkvæmt stjórnsýslulögunum að taka til athugunar og eftir atvikum efnislegrar meðferðar öll (leturbreyting mín) þau erindi sem nefndinni berast og heyra undir gildissvið laga um fjölmiðla.“ (bls. 2)
b) Nefndin hefur ekki átt frumkvæði að því að fjalla um meint brot á 26. gr. lagana um lýðræðislegar grundvallarreglur, hvað sem verður í framtíðinni. (bls. 2)
c) „Hver sem er getur borið fyrir sig 26. gr. laga um fjölmiðla og fjölmiðlaveitan sem slík ber ábyrgð samkvæmt lagareglunni. Álit og ákvarðanir fjölmiðlanefndar bera það með sér að einungis hluti erinda þeirra sem borist hafa nefndinni varða einstaklingsbundin lögvarin réttindi þeirra sem eiga hagsmuni (sic) að gæta.” (bls. 7)
Samkvæmt þessu og 3. og 4. gr. starfsreglna nefndarinnar virðist svo að hver sem er geti kært hvaða efni sem er og birst hefur í íslenskum fjölmiðlum til nefndarinnar og nefndinni sé skylt að taka það fyrir. Enginn áskilnaður er um aðild eða tímamörk á birtingu svo dæmi séu tekin. Það er auðvitað ótæk niðurstaða og vandséð hvernig það leiðir sjálfkrafa af rannsóknarreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Samanburður á siðareglum Blaðamannafélags Íslands og ítarlegum vinnureglum siðanefndarinnar annars vegar og 26. grein laganna um lýðræðislegar grundvallarreglur, hins vegar, verður sérkennilegur í ljósi þess að þessi lagagrein er stefnuyfirlýsing um grundvallareglur í fjölmiðlun. Slíkur samanburður er á engan hátt viðeigandi, enda segir orðrétt í nefndaráliti meirihluta menntamálanefndar sem minnihlutinn tók undir þegar frumvarp um fjölmiðla varð að lögum „að ákvæðið um lýðræðislegar grundvallarreglur beri að túlka sem stefnuyfirlýsingu um grundvallarreglur í fjölmiðlun en ekki sé með því ætlunin að setja tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla auknar skorður.” Íþyngjandi og óeðlilegar skorður á táningafrelsið eru hins vegar reistar ef stjórnsýslunefnd á vegum framkvæmdavaldsins hyggst yfirfara og krefja blaðamenn upplýsinga og gagna um fréttamat þeirra og dagleg vinnubrögð á grundvelli ábendinga frá Pétri og Páli í stað þess að slíku sé einfaldlega vísað til siðanefndar BÍ eða dómstóla.
Af ofangreindu má vera ljóst að fjölmiðlanefnd er komin langt út fyrir valdsvið sitt varðandi þau erindi sem henni hafa borist og hún hefur kosið að láta sig varða. Það er einboðið að fulltrúar Blaðamannafélags Íslands geta ekki tekið þátt í starfi fjölmiðlanefndar meðan nefndin er á þessari óheillabraut. Félagið mun jafnframt að gefnu tilefni beina því til félagsmanna sinna að þeir íhugi hvort erindi frá fjölmiðlanefnd varðandi 26. grein laga um lýðræðislegar grundvallareglur þarfnist svars í ljósi þeirra lögskýringagagna sem að framan greinir og finna má meðal annars í greinargerð og nefndaráliti meirihluta og minnihluta menntamálanefndar þegar frumvarp um fjölmiðla varð að lögum.
Virðingarfyllst,
Fyrir hönd stjórnar Blaðamannafélags Íslands
Hjálmar Jónsson, formaður
Afrit: Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra