- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Látinn er í Reykjavík Atli Steinarsson, blaðamaður. Atli fæddist í Reykjavík 30. júní 1929, foreldrar Steinarr St. Stefánsson, fulltrúi, og eiginkona hans, Ása Sigurðardóttir. Atli stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands 1943-50 og lauk þaðan stúdentsprófi. Innritaðist í læknadeild Háskólans 1950, en hóf jafnframt störf sem blaðamaður við Morgunblaðið og starfaði til ársins 1975. Hann fór þá á Dagblaðið og var þar til 1981. Þá fór hann á fréttastofu útvarpsins og var þar til 1986. Samhliða rak Atli og ritstýrði ásamt konu sinni, Önnu Bjarnason, Mosfellspóstinum í um sex ár.
Á árunum 1988 til 1997 var Atli í Bandaríkjunum sem sjálfstætt starfandi blaðamaður, en gerðist blaðamaður hjá Sunnlenska fréttablaðinu þegar hann sneri heim og var þar til 2005, að því er fram kemur í bókinni Íslenskir blaðamenn, en þar er rætt við Atla sem handhafa blaðamannaskírteinis nr. 2 á 110 ára afmæli Blaðamannafélagsins. Atli starfaði mikið fyrir Blaðamannafélag Íslands á árum áður og sat í stjórn þess frá 1956-1975. Hann var einn af fjórum helstu hvatamönnum að stofnun Samtaka íþróttafréttamanna, enda var hann umsjónarmaður íþróttafrétta Morgunblaðsins um árabil. Hann var formaður Samtaka íþróttafréttamanna í níu ár. Sjálfur var Atli góður íþróttamaður á yngri árum, var Íslandsmeistari í sundi og keppti á ólympíuleikunum í London 1948. Atli var félagi nr. 1 í Blaðamannafélagi Íslands, en það hafði hann verið frá því að kollegi hans af Morgunblaðinu, Þorbjörn Guðmundsson lést fyrir skömmu.