- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sérstakur stuðningur með endurgreiðslu tryggingagjalds af launum blaðamanna og fyrirheit um endurskoðun á fjármögnun RÚV eru meðal helstu breytinga á fjölmiðlafrumvarpi því sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir lagði fram á þingi nú í dag. Önnur atriði frumvarpsins eru að mestu samhljóða þeim drögum sem kynnt voru í samráðsgáttinni á sínum tíma, þ.e. endurgreiðsla á allt að 25% af ritstjórnarkostnaði að hámarki 50 milljónir á fjölmiðil að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Ákvæðið um „sérstakan stuðning“ eða endurgreiðsla tryggingagjaldsins, upp á 5,15% af launum blaðamanna upp að þeim mörkum þar sem efra skattþrepið tekur við, er ekki bundin neinu hámarki líkt og endurgreiðsla á ritstjórnarkostnaði og kemur þetta ákvæði greinilega til móts við gagnrýni stóru miðlanna sem töldu sig fá hlutfallslega lítið út úr fyrri tillögum, en viðbúið er að til viðbótar 50 milljónuna þakinu muni þessir miðlar fá tryggingagjaldið til viðbótar.
Fyrirheitin um endurfjármögnun á RÚV eru óljósari og eiga væntanlega að koma til móts við efasemdarraddir í Sjálfstæðisflokknum. En menntamálaráðherra sagði í Kastljósi RÚV í kvöld að ekki væri hugmyndin að veikja RÚV, og því yrði bættur tekjumissir ef til þess kæmi t.d. að taka það af auglýsingamarkaði. En ákvæðið í frumvarpinu hljóðar svona:
„Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu var undirritaður árið 2015 og rennur út í árslok 2019. Stefnt er að því að fyrir þann tíma verði athugað hvort breyta skuli tekjuuppbyggingu Ríkisútvarpsins, þar á meðal hvort draga skuli úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði eða að fjármögnun starfseminnar verði einungis byggð á opinberum fjármunum.“