- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Evrópusamband blaðamanna (EFJ) segir það áfall að frétta af áformum danskra stjórnvalda um að skera niður fjárframlög til danska ríkisútvarpsins DR um 20% á næstu 5 árum. EFJ skorar á dönsk stjórnvöld að draga þessi áform til baka.
Danska ríkisstjórnin hefur komið sér saman um nýjan fjölmiðlasamning sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda í ársbyrjun næsta árs. Þar er gert ráð fyrir að fjárhagsáætlun DR dragist saman um 20% á næstu 5 árum eða um 4% á ári og auk þess verði hætt við að fjármana DR með afnotagjöldum. Þessi áætlun hefur fengist samþykkt í stjórnarflokkum með stuðningi Dansk Folkeparti.
Daninn Mogens Blicher Bjerregård sem jafnframt er formaður EFJ segir að þessi tíðindi valdi áhyggjum því um alla Evrópu hafi fjölmiðlar – ekki síst almannamiðlar – þurft að þola niðurskurð og afskipti stjórnmálamanna og nú berist fréttir frá því landi sem hafi stært sig af miklu fjölmiðlafrelsi að höggva eigi á báðum þessum stöðum, annars vegar með niðurskurði og hins vegar með afnámi afnotagjaldsins.
„Niðurskurður um 20% mun hafa gríðarleg áhrif á innihald og getu almannamiðilsins, og kemur niður á rannsóknarblaðamennsku og dregur úr fjölbreytni. Það að afnema afnotagjöldin og setja DR á fjárlög er mjög vafasamur gerningur og býður þeirri hættu heim að stjórnvöld fari að skipta sér af því sem fram fern inni á fréttastofnum, en þessu hefði maður ekki átt von á frá landi eins og Danmörku,“ segir Bjerregård.
Formaður Blaðamannafélags Danmerkur, Lars Werge , talar á svipuðum nótum og segir að tillögur stjórnvalda séu árás gegn dönsku almannaútvarpi og að óskiljanlegt sé að danskir stjórnmálamenn sem þekki vel til alþjóðlegrar samkeppni frá risafyrirtækjum á samskiptamarkaði skuli bera með þessum hætti hagsmuni þessara risafyrirtækja fyrir brjósti. „Ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta muni hafa slæm áhrif á lýðræðið,“ segir Werge.
Sjá ennfremur hér
Sjá einnig umfjöllun hér