- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Það eru alþjóðlegu blaðamennskustofnanirnar IPI og IMS sem árlega útnefna „Hetju fjölmiðlafrelsis“, en í ár er það mexíkóska blaðakonan Carmen Aristegui, sem í áratugi hefur ótrauð stundað rannsóknarblaðamennsku í heimalandi sínu sem hlýtur viðurkenninguna World Press Freedom Hero.
Með viðurkenningunni er Aristegui heiðruð fyrir að hafa af þrautseigju og hugrekki veitt valdhöfum í landi sínu aðhald um langt árabil með því að fletta ofan af spillingu og gagnrýnni umfjöllun byggðri á rannsóknarblaðamennsku. Tilraunir til að þagga niður í henni hefur sannarlega ekki skort, en hún hefur staðið þær allar af sér fram að þessu.
Vegna sinnar beittu gagnrýni hefur Aristegui sætt alls kyns ofsóknum af hálfu mexíkóskra yfirvalda og annarra valdaafla í landinu, þar með talið tilraunir til mannorðsmorðs og atvinnumissi fyrir tilstilli pólitískra afskipta. Hún og fjölskylda hennar sætti eftirliti með Pegasus-njósnaforritinu frá árinu 2015, en það er eitt fyrsta þekkta tilvikið í heiminum um beitingu slíks njósnabúnaðar gegn blaðamönnum.
Mexíkó er eitt hættulegasta land heims fyrir beitta blaðamenn, en það hefur ekki aftrað Aristegui frá því að halda ótrauð áfram á braut rannsóknarblaðamennskunnar. Styrkur hennar og æðruleysi hefur aflað henni virðingar langt út fyrir landsteina heimalandsins, og veitt heilli kynslóð kvenblaðamanna innblástur í hinu annars mjög karllæga fjölmiðlaumhverfi sem ríkir í Mexíkó.
Í landi þar sem pólitísk skautun og upplýsingaóreiða fara vaxandi og þar sem ráðist er á blaðamann eða ritstjórn fjölmiðils að meðaltali á þrettán tíma fresti er óháð og vönduð blaðamennska af því tagi sem Aristegui stundar og er fulltrúi fyrir, ekki bara nauðsynleg heldur er hún jafnframt lykilþáttur í sérhverju lýðræðissamfélagi.
World Press Freedom Hero-verðlaun IPI og IMS verða veitt við hátíðlega athöfn í tengslum við ársfund IPI í Vínarborg hinn 25. maí næstkomandi.