- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Tryggvi Aðalbjörnsson, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Jóhannes Kr. Kristjánsson fengu í dag Blaðamannaverðlaun BÍ fyrir árið 2016 hvert í einum þeirra fjögurra flokka sem verðlaunin eru veitt í.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, Stundinni, fékk verðlaun í flokknum Viðtal ársins 2016 fyrir viðtalið Engillinn sem villtist af leið. Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Viðmælandinn, Berglind Ósk Guðmundsdóttur, rekur örlög systur sinnar, Kristínar Gerðar, sem svipti sig lífi eftir langa og harða baráttu við eiturlyfjafíkn og geðsjúkdóma. Í kjölfar misnotkunar í æsku leiddist Kristín Gerður út í vændi og árum saman glímdi hún við afleiðingar þess; yfirþyrmandi angist, vonleysi og hræðslu.
Ingibjörg Dögg nálgast vandmeðfarinn efnivið af nærgætni og fagmennsku. Hún nær góðu sambandi við viðmælanda sinn og dýpkar frásögnina með heimildavinnu. Þannig styðst Ingibjörg Dögg meðal annars við dagbókarfærslur hinnar látnu systur og nafnlaus viðtöl sem Kristín Gerður veitti í lifanda lífi.
Engillinn sem villtist af leið er áminning um hversu erfitt það er að komast út úr svo erfiðum aðstæðum, hve litla aðstoð er að fá og hvernig kerfið brást Kristínu Gerði á ögurstundu.
Tryggvi Aðalbjörnsson, RÚV, fékk verðlaunin í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins 2016 fyrir umfjöllun sína um Brúnegg. Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Tryggvi fletti ofan af einu stærsta neytenda- og dýravelferðarmáli undanfarinna ára með umfjöllun sinni um illa meðferð á varphænsnum hjá Brúneggjum. Mánuðum saman safnaði Tryggvi miklum upplýsingum frá Matvælastofnun sem sýndu marg ítrekuð brot Brúneggja á lögum um velferð dýra og reglugerð um velferð alifugla. Einnig sýndu gögnin hvernig neytendur hafa verið blekktir árum saman með merkingum Brúneggja um vistvæna framleiðslu, þrátt fyrir að hafa aldrei uppfyllt reglur um slíkt. Af þessu vissi Matvælastofnun, en upplýsti ekki.
Eftirlitsstofnanir eru mikilvægar stofnanir í nútímasamfélagi en til þess að þær virki sem skyldi þurfa þær að hafa bit þegar á þarf að halda. Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa almenning um brotalamir fyrirtækja og blekkingar. Það er ekki síður mikilvægt að fjölmiðlar upplýsi um máttleysi eftirlitsstofnana þegar að þær bregðast svo hægt sé að krefjast úrbóta.
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, Stöð 2, fékk verðlaunin í flokknum Umfjöllun ársins 2016 fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum. Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Sigrún uppfyllti ósk þriggja ættleiddra kvenna um að hitta líffræðilegar mæður sínar. Um leið gaf hún landsmönnum einstakt tækifæri til að upplifa tilfinningaríka endurfundi eftir áratuga aðskilnað.
Það sýnir metnað að ráðast í leitina og elju að árangur náðist, enda margra mánaða undirbúningur að baki og vinna sem margir hefðu talið óvinnandi verk. Vandað var til þáttanna og útsjónarsemi sýnd í rannsókn sem náði til ólíkra landa, þar sem fátækrahverfi Srí Lanka og fjallaþorp í Tyrklandi komu við sögu. Upplifun kvennanna var reifuð af virðingu og náðust myndir af einstökum augnablikum í lífi þeirra.
Leit Sigrúnar Óskar að uppruna kvennanna sýnir að blaðamenn geta af litlum efnum áorkað miklu. Verkefnið á sér ekki hliðstæðu hér á landi og er Leitin að upprunanum besta umfjöllun ársins.
Jóhannes Kr. Kristjánsson, Reykjavík media, fékk verðlaunin í flokknum Blaðamannaverðlaun ársins 2016 fyrir ítarlega rannsókn á Panama-skjölunum. Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Birting Panama-skjalanna á síðasta ári olli gífurlegu umróti hér á landi. Hér urðu ein mestu mótmæli sem um getur, forsætis¬ráðherrann varð að segja af sér, efnt var til þingkosninga fyrr en áætlað var og ný stjórn tók við völdum.
Jóhannes vann einn í marga mánuði í samvinnu við erlenda rann-sóknarblaðamenn að rannsókn á Panama-skjölunum sem margir helstu fjölmiðlar heims birtu fréttir upp úr á sama tíma. Við úrvinnslu fréttanna naut hann samvinnu við sænska sjónvarpið, RÚV, Kastljós, Stundina, Kjarnann og Fréttatímann, sem birtu fjölmargar fréttir byggðar á Panama-skjölunum og frumvinnu Jóhannesar. Auk þess fékk hann Aðalsteinn Kjartansson til liðs við sig stuttu fyrir Kastljós-þáttinn fræga. Allt þetta byggði á vandaðri blaðamennsku, samvinnu margra fjölmiðla og fyrst og fremst mikilli undirbúningsvinnu.
Jóhannes hefur um áraraðir lagt stund á rannsóknarblaðamennsku, sótt fjölmargar ráðstefnur og fundi um efnið og byggt upp tengslanet sem leiddi til þessara frétta.
Einnig voru í dag afhent verðlaun fyrir Myndir ársins í ýmsum flokkum, en verðlaun fyrir Mynd ársins 2016 fékk Heiða Helgadóttir.