Blaðamannaverðlaun og Myndir ársins í Hörpu á laugardag

Blaðamannaverðlaun BÍ verða afhent næstkomandi laugardag, 3. mars  kl 15.00 og á sama tíma verður opnuð ljósmyndasýning BLÍ, Myndir ársins. Eins og jafnan við opnun sýningarinnar verða afhent verðlaun fyrir myndir ársins í hinum ýmsu flokkum. Opnunin og afhending allra verðlaunanna fer í ár fram í salnum Esju sem er á 5. hæð austan við Eldborgarsalinn í Hörpu í Reykjavík.  Þessi fjölmiðlahátíð er öllum opin meðan húsrúm leyfir.

Blaðamannaverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum og hafa tilnefningar þegar verið birtar en þær eru þessar:

Viðtal ársins
Jóhann Páll Jóhannsson, Stundinni -  Fyrir áhrifamikið viðtal við Sigurlaugu Hreinsdóttur, móður Birnu Brjánsdóttur, þar sem hún segir frá lífshlaupi dóttur sinnar, missinum, sorginni og viðbrögðum samfélagsins.

Júlía Margrét Alexandersdóttir, Morgunblaðinu - Fyrir einlægt viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur þar sem hún lýsir aðkomu og eftirköstum þess að eiginmaður hennar, Sigursteinn Gunnarsson, svipti sig lífi árið 1997.

Viktoría Hermannsdóttir, RÚV - Fyrir viðtal við Árna Jón Árnason í þættinum Á ég bróður á Íslandi? Einstök og falleg innsýn í líf manns þegar hann fær þær fréttir að hann eigi hálfbróður og hittir í fyrsta sinn.

Rannsóknarblaðamennska ársins
Alma Ómarsdóttir, RÚV. - Fyrir upplýsandi og heildstæða umfjöllun um hverjir hlutu uppreist æru, hverjir væru meðmælendur þeirra og áhrif uppreistarinnar á brotaþola.

Hörður Ægisson, Fréttablaðinu - Fyrir greinargóða umfjöllun um viðskipti með hlutafé í Arion banka, ekki síst áhrif kaupa þriggja vogunarsjóða í bankanum.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jóhann Páll Jóhannsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson, Stundinni - Fyrir afhjúpandi umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans og náin tengsl við Glitni í aðdraganda bankahruns.

Umfjöllun ársins
Jóhann Bjarni Kolbeinsson, RÚV - Fyrir greinargóða umfjöllun um átakanlegar aðstæður þeirra barna sem bjuggu á Kópavogshælinu á árunum 1952-1993, vanrækslu þeirra og ofbeldi sem þau voru beitt. 

Kjartan Hreinn Njálsson, Stöð 2/365 - Fyrir nýstárlega umfjöllun um CRISPR/Cas9-erfðatæknina og hvernig íslenskir vísindamenn beita henni til að þróa ný lyf og hvaða siðferðilegar spurningar tæknin vekur.

Sunna Ósk Logadóttir, Morgunblaðinu - Fyrir að reifa skilmerkilega hvernig raforkuþurrð til náinnar framtíðar kallar á ákvarðanir um hvort draga þurfi úr notkun hennar eða virkja meira og ólík sjónarmið þar um.

Blaðamannaverðlaun
Magnús Halldórsson, Þórður Snær Júlíusson og Þórunn Elísabet Bogadóttir, Kjarnanum - Fyrir greinargóða umfjöllun um tillögur dómsmálaráðherra til Alþingis um skipan í stöður dómara við hið nýja dómsstig Landsrétt.

Ritstjórn, Stundinni - Fyrir ítarlega umfjöllun um uppreist æru kynferðisbrotamanna, áhrif þess á fórnarlömb mannanna og tregðu stjórnvalda til upplýsingagjafar.

Sigríður Hagalín, RÚV - Fyrir upplýsandi umfjöllun um konur sem fengu mótmælendur fyrir utan heimili sín í kjölfar hrunsins og mismunandi viðhorf mótmælenda þegar þeir litu til baka.