- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur samþykkt meðfylgjandi ályktun:
Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir yfir furðu sinni á framkomu forsvarsmanna 365 miðla í garð Loga Bergmanns Eiðssonar, fréttamanns, í kjölfar þess að hann ákveður að skipta um starf og hefja störf hjá samkeppnisaðila. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist á íslenskum fjölmiðlamarkaði og örugglega ekki í það síðasta. Hingað til hefur tekist að leysa slík mál farsællega, enda ekkert sjálfsagðara en fólk geti skipt um starf og leitað nýrra áskorana. Það er hagur allra sem starfa á fjölmiðlamarkaði, atvinnurekenda jafnt sem blaðamanna. Vistarbandið var afnumið í íslensku samfélagi á 19. öld og það er ótrúlegt ef gerðar eru tilraunir til þess að endurvekja það á 21. öldinni. Sérstaka furðu vekur þáttur sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu og hversu auðvelt virðist vera að fá samþykkt lögbann hjá embættinu. Það er gríðarlega íþyngjandi gagnvart starfsmanni að uppsagnarfrestur sé óhóflegur og stenst hvorki kjarasamninga né íslensk lög. Það er síðan glórulaust að starfsmanninum sé meinað að koma aftur til starfa til að vinna uppsagnarfrest sinn og lögbanninu haldið til streitu! Stjórn Blaðamannafélags íslands skorar á forsvarsmenn 365 miðla að leysa þetta mál með farsælum hætti. Þannig er hagsmunum fyrirtækisins og starfsmannsins best þjónað.
Reykjavík 27. október 2017
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ