Skora á ÖSE að skipa nýjan forstöðumann fjölmiðlafrelsisdeildar strax

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) ásamt hópi félagasamtaka sem berjast fyrir mannréttindum og tjáningarfrelsi hafa sent áskorun til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, þar sem segir að ekki megi dragast lengur að samtökin tilnefni nýjan forstöðumann fjölmiðlafrelsisdeildar ÖSE í stað Dunja Mijatovic, sem lét af störfum í mars síðast liðinn. Dunja Mijatovic lét talsvert að sér kveða í fjölmiðlamálum í Evrópu og var blaðmönnum að mörgu leyti haukur í horni, en hún kom m.a. til Íslands fyrr nokkrum misserum og átti fund með forustu Blaðamannafélagsins og fleirum til að kynna sér stöðuna í fjölmiðlum af eigin raun. Í fyrra beitti hún sér meðal annars fyrir því að legja áherslu á mikilvægi sjálfs-eftirlits blaðamanna og var um það fjallað hér á síðuni.

Sjá meira hér

 

Nýtt landsbyggðarblað

„N4 Landsbyggðir“ er nýtt blað sem N4 gefur út og lítur fyrsta tölublaðið dagsins ljós í næstu viku, þriðjudaginn 20. júní. Blaðið verður prentað í 54.500 eintökum á umhverfisvænan og svansvottaðan pappír hjá Ísafoldarprentsmiðju. N4 Landsbyggðir er eina fríblað landsins sem dreift er á öll heimili á landsbyggðunum sem ekki afþakka fjölpóst. Þá verður blaðinu einnig dreift til allra fyrirtækja landsins.

„Ritstjórnarstefna blaðsins er í grunninn sú sama og dagskrárstefna N4 Sjónvarps og byggð á þeirri hugmyndafræði  sem starfsemi N4 hvílir á. Landsbyggðunum verður gert hátt undir höfði og fjallað bæði um atvinnu- og mannlíf með uppbyggilegum hætti og bjartsýnina að leiðarljósi. Blaðið og sjónvarpið tengjast á þann hátt að hægt er að horfa á viðtöl úr blaðinu á heimasíðu N4 með því að nota QR-kóða sem finna má við þau viðtöl sem það á við um. Fyrstu fjögur blöðin verða gefin út aðra hvora viku og móttökur lesenda og auglýsenda ráða miklu um framhaldið. Blaðið skipar sér strax í hóp víðlesnustu blaða landsins því upplagið er það stórt. Við teljum hiklaust að stórt blað sem leggur áherslu á að raddir landsbyggðanna heyrist eigi fullt erindi á markaðinn,“  segja Hilda Jana Gísladóttir og María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjórar N4.

N4 rekur sjónvarpsstöð, framleiðsludeild, hönnunarsvið og gefur vikulega út N4 Dagskrána sem dreift er á Norðurlandi. Höfuðstöðvar N4 eru á Akureyri en fyrirtækið er einnig með starfsemi  á Austur- og Vesturlandi.

 

Írland: Free-lance blaðamenn fá samningsrétt

Írskir free-lance blaðamenn hafa nú fengið samningsrétt, þ.e. rétt til að vinna eftir sameiginlegum kauptaxta sem ákveðinn hefur verið í samningum milli atvinnurekenda og blaðamannasamtaka. Þessi mikilvæga breyting varð við það að írska þingið samþykkti nú um mánaðarmótin viðbót við samkeppnislögin sem heimila ákveðinni tegund af einyrkjum að vera undanlegnir ákvæðum laganna.  Nú eru liðin um 13 ár frá því að Samkeppniseftirlitið í Írlandi úrskurðaði að taxtar sem blaðamenn eða listamenn hafa samið um á vettvangi félaga sinna væru brot á samkeppnislögum. Um þetta segir Séamus Dooley, framkvæmdastjóri NUJ, Blaðamannabandalags Bretlands:  „Þetta er umtalsverður árangur fyrir verkalýðshreyfinguna og sýnir mátt þrautseigjunnar.  Við hefðum aldrei átt að verða fórnarlömb hugmyndafræðilegrar þröngsýni Samkeppniseftirlitsins í túlkun á kjarasamningum.“

 Sjá einnig hér

 

 

 

Siðanefnd vísar máli Kjarnans gegn Morgunblaðinu frá

Siðanefnd hefur úrskurðað í máli Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans gegn Morgunblaðinu, þar sem í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var fjallað um umfjöllum Kjarnans um Morgunblaðið. Siðanefnd vísaðimálinu frá með tilvísunar til fordæmis fyrri úrskurða um að ritstjórnargreinar bæri að skoð aí ljósi síðustu málsgreinar 5.greinar siðareglnanna sem er svona: Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningafrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi."

Sjá má úrskurðinn hér

Árvakur víkkar út fjölmiðlastarfsemi sína

Útgáfufélagið  Árvakur  sem á og rekur meðal annars útvarpsstöðina K100, Morgunblaðið og mbl.is, hóf í morgun útvarpsútsendingar frá útvarpsstöðinni K100 á vefnum og í sjónvarpi. K100 er fyrsta útvarpsstöðin hér á landi sem sendir út dagkrá sína samtímis í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Þá blandar K100 sér í útvarpsfréttaslaginn og þar eru nú sagðar fréttir frá fréttastofum Morgunblaðsins og mbl.is á klukkutíma fresti yfir daginn.  

Sjá einnig hér

 

BÍ fær afhenta skýrslu mum mannréttindi í Tyrklandi

Blaðamannafélag Íslands veitti í gær viðtöku skýrslu um stöðu mannréttindamála í Tyrklandi en þar er sérstaklega vakin athygli á takmörkunum á tjáningarfrelsi, lokun fjölmiðla og fangelsun fréttmanna sem gagnrýnir eru á stjórnvöld.

Skýrlan var unnin af tíu manna sendinefnd talsmanna mannréttinda, stjórnmálamanna, fréttamanna og fræðimanna, sem heimsótti Tyrkland 13. – 19. febrúar síðastliðinn. Sendinefndin kenndi sig við Imrali en á þeirri eyju hefur Öcalan leiðtoga Kúrda verið haldið í einangrunarfangelsi síðan 1999. Hópurinn bað um leyfi til að heimsækja hann í fangelsið svo og þingmenn úr röðum Kúrda sem sitja á bak við lás og slá. Ekki var orðið við þeirri beiðni.

Sendinefndin heimsótti Istanbúl og Diyarbakir í austurhluta Tyrklands og fór talsvert um að auki. Fundað var með stjórnmálamönnum, forsvarsmönnum verkalýðshreyfingar, blaðamönnum og fulltrúum fjölmiðla sem hafði verið lokað,

Í skýrslu nefndarinnar er athygli vakin á alþjóðlegum greinargerðum sem gagnrýna tyrknesk stjórnvöld fyrir að torvelda frjálsa fjölmiðlun, svo sem Human Rights Watch sem segir tilhneigingu til ofsókna á hendur gagnrýnum fjölmiðlum hafa farið vaxandi í Tyrklandi á árinu 2016 og fram á þennan dag. Í febrúar á þessu ári hafi tala fréttamanna sem stefnt hafi verið fyrir dóm á undanförnum misserum vegna fréttaumfjöllunar sinnar, verið kominn í 839 og þar af væru 151 á bak við lás og slá.   Að auki hefði 176 fréttastöðvum (media outlets) verið lokað og allur búnaður gerður upptækur. 780 blaðamenn hefðu verið sviptir blaðamannapassa sínum og þrjú þúsund blaðamenn misst vinnu sína. Þá hafa þúsundir einstaklinga verið dregnir fyrir dóm vegna skrifa á samfélagsmiðlum.

Imrali nefndin var sett á fót að frumkvæði Turkish Civic Commission sem starfar innan vébanda Evrópusambandsins og hefur verið fylgjandi aðild Tyrklands að sambandinu en með skýrum og afdráttarlausum fyrirvörum um að fyllstu mannréttinda sé gætt.

Á meðal nefndarmanna var Ögmundur Jónasson sem af henti formanni BÍ skýrsluna fyrir hönd sendinefndarinnar.

Um nefndina segir:

“The delegation included: two current representatives from the Parliamentary Assembly of the Council of Europe, Miren Edurne Gorrotxategi (Basque Country, Spain) and Ulla Sandbaek (Denmark); a current Member of the European Parliament, Julie Ward (UK); a former MEP, Francis Wurtz (France); a former Minister of Justice and trade unionist, Ögmundur Jonasson (Iceland); veteran Foreign Correspondent, Jonathan Steele (UK); the Chair of the Westminster Justice and Peace Commission, Father Joe Ryan (UK); the Chair of the Transnational Institute for Social Ecology (TRISE), Dimitri Roussopoulos (Canada); a member of the TRISE advisory board and researcher at Leeds University, Federico Venturini (Italy); and a Lecturer from the University of Cambridge, Thomas Jeffrey Miley (USA).”

Skýrsluna er a  finna hér: Final Report of the Third Imrali Delegation 2017.docx.pdf 

 

Stöð 2 ekki brotleg við siðareglur

Siðanefnd hefur úrskurðað í máli þar sem barnsmóðir Ólafs William Hand kærði  365 miðla/Fréttastofu Stöðvar 2 vegna viðtals við Ólaf í dægurmálaþætti Stöðvar 2 og vísunar til þess nokkra daga á eftir.  Niðurstaða Siðanefndar BÍ er að Stöð 2 hafi ekki verið brotleg við siðareglur Blaðamannafélagsins.

Sjá úrskurðinn í heild hér

 

Alls staðar steðjar einhver ógn að fjölbreytni í fjölmiðlum

Verkefnið „Media Pluralism Monitor“  sem fjallar um að mæla og meta fjölbreytni í fjölmiðlum í Evrópu hefur nú  sent frá sér ítarlega skýrslu þar sem farið er yfir stöðuna varðandi tjáningarfresli,  fagmennsku, vernd blaðamanna,  samþjöppun eignarhalds fjölmiðla og fleira sem notað er til að meta hversu frjálsir og fjölbreyttur fjölmiðlamarkaður í einstaka löndum eru.  Í stuttu máli er niðurstaðan sú að í öllum  28 löndum ESB auk Tyrklands og Svartfjallalands má segja að einhver ógn steðji að fjölbreytni í fjölmiðlum, þó það sé nokkuð mismunandi.  Þannig má merkja afturför varðandi vernd blaðamanna og tjáningarfresli í um þriðjungi landanna.  Stuðst er við ítarlegt kerfi og nokkrir þættir skoðaðir til að leggja mat á stöðuna í einstökum löndum og er umfjöllunin um hvert land mjög áhugaverð. Þannig er fróðlegt fyrir íslenska fjölmiðlaáhugamenn að skoða kaflana um hin norrænu ríkin sem þarna eru, þ.e. Danmörk, Svíðþjóð og Finnland en Íslendingar, sem ekki er fjallað um í verkefninu, hafa lengi miðað sig við þessar frændþjóðir okkar.

Sjá skýrsluna í heild hér

Árósarskólinn: Umsóknarfrestur til 5. júní

Ástæða er til að benda íslenskum blaðamönnum á það einstak tækifæri sem felst í því að geta sótt námskeið NJC , eða Norræna blaðamannaskólans í Árósum, í haust. Umsóknarfrestur er til 5. júní. Um er að ræða námskeið sem hefur yfirskriftina Tengsl Norðurlanda við Evrópu, og hvernig á að fjalla um þessi tengsl á tímum stafrænna miðla.

Námskeiðið hefst 22. október og stendur til 11.nóvember. Blaðamannafélagið veitir félögum sínum stuðning í samræmi við reglur Endurmenntunarsjóðs.

Sjá nánar hér

 

Jóhanna Kristjónsdóttir látin

Látin er Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður og rithöfundur. Hún stundaði blaðamennsku allt frá árinu 1958 og hafði hana að aðalstarfi til 1995. Jóhanna var handhafi blaðamannaskírteinis nr.16 og var hún því einn viðmælenda í nýútkokminni bók Blaðamannafélagsins „Í hörðum slag – Íslenskir blaðamenn II“.

Jóhanna Kristjónsdóttir fæddist Reykjavík 14. febrúar 1940. Foreldrar hennar voru Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir, húsmóðir og gjaldkeri, og Kristjón Kristjónsson, forstjóri.

Jóhanna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1959 og hún lauk prófi í hebresku frá Háskóla Íslands 1962. Þá nam hún arabísku og Miðausturlandafræði í Kaíró, Sanaa og Damaskus frá 1995-2000.

Jóhanna var blaðamaður á Vikunni 1958-59 og lausráðinn blaðamaður á Tímanum 1962-66. Hún var fastráðin á Morgunblaðið árið 1967 og var þar til 1995. Á þeim tíma var hún meðal annars yfirmaður sérblaðs Morgunblaðsins sem kallaðist Daglegt líf og ferðalög.

Hún giftist Jökli Jakobssyni (1933-1978) 1957, en þau skildu 1969. Þeirra börn eru Elísabet Kristín, Illugi og Hrafn. Sambýlismaður Jóhönnu frá 1971-1977 var Höskuldur Skarphéðinsson (1932-2014), en þau skildu. Barn þeirra er Kolbrá.

Jóhanna gaf út tólf bækur, m.a. sjálfsævisögur, ljóð, skáldsögur og ferðabækur.

Hún stofnaði og stýrði Félagi einstæðra foreldra 1969-1984 og Vima (vináttu- og menningarfélagi Íslands og Miðausturlanda) 2004-2013.

Margir samferðamenn hafa orðið til að minnast Jóhönnu í gær og í dag , m.a. á samfélagsmiðlum. Einn þeirra er Margrét Heinreiksdóttir, en þær Jóhanna unnu náið saman á Morgunblaðinu þegar blaðamennska var enn mikill karlaheimur. Pistill Margrétar fer hér á eftir.  Press.is og B.Í. vottar aðstandendum og vinum Jóhönnu samúð sína.

 ***

Pistill Margrétar Heinreiksdóttur:

Mikil merkiskona er fallin frá - og mér er þungt um hjarta enda þótt við höfum sjaldan hist síðustu áratugina. Við áttum hinsvegar mörg góð ár saman á gamla Mogga áður en leiðir skildu; vorum lengi í sama glerbásnum á ritstjórninni í Aðalstrætinu og ég man ekki til þess að okkur sinnaðist nokkurn tíma. Ég man okkur ýmist önnum kafnar og stressaðar í kappi við að ljúka skrifum á "deadline" - eða í skemmtilegum og uppbyggilegum samræðum á góðum stundum milli stríða. Úr þessum glerbás fjarstýrðum við líka börnum okkar oft og iðulega. Þau voru kannski ekki alltaf öfundsverð af þessum önnum köfnu mæðrum en vonandi fengu þau samt eitt og annað jákvætt frá okkur þegar tími vannst til.

Jóhanna hafði mikinn húmor og sérstakan og var einkar lagið að slá upp í grín ef einhver ætlaði að abbast upp á okkur. Um tíma ritstýrðum við saman Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og skrifuðum mikið af efni sem þar birtist. Blaðið gekk dúndur vel hjá okkur en um það starf okkar vissu fáir utan blaðsins og okkar nánustu. Kom að því að við urðum sammála um að neita að halda því starfi áfram þegar okkur var neitað um að fá nafna okkar getið þar - þó ekki væri nema í smáboxi einhversstaðar þar sem hlutdeild okkar kæmi fram. Þá sagði einn ritstjóranna: "Það á eftir að líða langur tími þar til kona kemst í "haus" á Morgunblaðinu.

Báðar áttum við eftir að hverfa frá blaðinu, ég árið 1975 en hún ekki fyrr en tveim áratugum seinna - og "snúa við blaðinu" eins og sagt er, fara til margra ára náms og annarra starfa. Þannig skildu leiðir, við fórum hvor í sína áttina og hittumst sjaldan eftir það, báðar vinnuþrælar, hvor á sínum stað. Dreif mig þó í eina af ferðunum sem hún stóð fyrir til Arabalandanna - stórskemmtilega og fróðlega ferð til Sýrlands sem ætíð lifir í minningunni. Ætlaði alltaf að fara í fleiri ferðir hennar en kom því ekki við.

Jóhanna var einstök baráttukona. Þar sem hún lenti sjálf í vanda og/eða sá aðra í sömu/svipuðum sporum, tók hún til sinna ráða, hóf upp barátturaust sína og virkjaði sjálfa sig og aðra til góðra verka sem komu fjölda manna og kvenna til góðs. Hún lifði lífinu svo sannarlega lifandi, hún Jóhanna Kristjónsdóttir og það var mikið lán að fá að kynnast og starfa með henni. Minning hennar mun ekki aðeins lifa með okkur sem kynntumst henni heldur og í bókum hennar - og vonandi í lífi og starfi þeirra ungu kvenna sem urðu aðnjótandi menntunar fyrir hennar tilstilli. Fjölskyldu hennar og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.